Hlutabréfaeign Stoða, eins stærsta fjárfestingafélags landsins, í skráðum félögum minnkaði um nærri fimmtung að markaðsvirði á fyrstu þremur mánuðum ársins, samkvæmt útreikningum Markaðarins. Gengistap félagsins vegna verðfallsins nam tæpum 3,5 milljörðum króna.

Þannig stóð markaðsvirði hlutabréfaeignar Stoða í Arion banka, Símanum og TM í samanlagt 14,1 milljarði króna í lok mars síðastliðins en til samanburðar var hlutur fjárfestingafélagsins í félögunum þremur metinn á um 17,5 milljarða króna í byrjun ársins. Félagið bætti við sig í TM en seldi sig lítillega niður í Arion banka í marsmánuði.

Sem kunnugt er lækkaði úrvalsvísitala Kauphallarinnar um hátt í átján prósent á fyrsta fjórðungi ársins vegna áhyggna fjárfesta af áhrifum kórónaveirunnar en lækkunin var sú mesta á einum fjórðungi í ellefu ár.

Lækkunin á markaðsvirði eignarhluta Stoða í áðurnefndum félögum, Arion banka, Símanum og TM, var svipuð, eða ríflega nítján prósent. Þess má þó geta að hlutabréfaverð í félögunum hefur hækkað lítillega það sem af er apríl.

Mest munaði um 36 prósenta verðfall á hlutabréfum Arion banka á ársfjórðungnum sem skilaði sér í um 2,8 milljarða króna gengistapi fyrir Stoðir. Fjárfestingafélagið fer með rúman 4,7 prósenta hlut í bankanum.

Gengistap Stoða af fjórtán prósenta hlut sinum í Símanum var um 150 milljónir króna á fyrstu þremur mánuðum ársins en gengi bréfa í fjarskiptafélaginu lækkaði aðeins um 2,2 prósent á tímabilinu, minnst allra félaga á aðallista Kauphallarinnar.

Þá féll hlutabréfaverð í TM um ríflega átján prósent á mánuðunum þremur sem skilaði sér í gengistapi fyrir Stoðir upp á hálfan milljarð króna. Fjárfestingafélagið heldur á um 11,7 prósenta hlut í tryggingafélaginu eftir að hafa bætt við sig 1,7 prósenta hlut í síðasta mánuði.

Stoðir áttu fjárfestingareignir upp á samanlagt ríflega tuttugu milljarða króna í lok síðasta árs en þar af námu skráðar eignir þess um 17,5 milljörðum króna að markaðsvirði, eins og áður sagði. Eigið fé fjárfestingafélagsins var um 25,2 milljarðar króna við síðustu áramót.

Ársávöxtun áðurnefndrar hlutabréfaeignar var 23 prósent í fyrra en Stoðir högnuðust um ríflega fjóra milljarða króna á árinu.