Agnar Tómas Möller, sjóðstjóri hjá Kviku eignastýringu, segir að það sé nær öruggt að Seðlabankinn virkji þjóðhagsvarúðartæki til að stemma af fasteignamarkaðinn sem sé aðaldrifkraftur verðbólgu og hækkandi verðbólguvæntinga. Ekki sé útilokað að bankinn hækki einnig stýrivexti á næstu mánuðum sem yrði sársaukafullt fyrir heimili og fyrirtæki.

Hagstofan greindi frá því í morgun að vísitala neysluverð hækkaði um 0,71 prósent í apríl frá fyrri mánuði. Tólf mánaða verðbólga hækkar því úr 4,3 prósentum í 4,6 prósent.

Verðbólgumælingin var langt umfram væntingar greinenda. Verðbólguspár sem gerðar hafa verið opinberar gerðu ráð fyrir hækkun á bilinu 0,05 prósent til 0,27 prósent. Tíðindin gerðiu það að verkum að fjárfestar hafa selt óverðtryggð skuldabréf og keypt verðtryggð. Krafan á óverðtryggða ríkisskuldabréfaflokkinn RIKB 31 hefur hækkað um 25 punkta í 1,7 milljarða króna viðskiptum þegar þetta er skrifað og krafan á verðtryggðaflokkinn RIKS 26 hefur lækkað um 19 punkta í 1,6 milljarða króna viðskiptum, samkvæmt upplýsingum frá Keldunni.

„... þá er ljóst að það er áfram verðbólguþrýstingur í hagkerfinu vegna launahækkana og hækkana að utan“

Agnar Tómas segir að verðbólgumælingin hafi verið „virkilega slæm“. Ekki bara fyrir Seðlabankann heldur fyrst og fremst fyrir hagkerfið í heild sinni. „Þótt mælingin sé drifin af í raun ótrúlegri hækkun á reiknaðri húsaleigu í vísitölunni, eða um 2,7 prósent, og hækkun mjólkurvara, þá er ljóst að það er áfram verðbólguþrýstingur í hagkerfinu vegna launahækkana og hækkana að utan þó áhrif þess voru ekkert sérstaklega mikil umfram það sem greinendur voru að spá,“ segir Agnar Tómas.

Hann segir að aðalvandamálið sé þó það að verðbólguvæntingar á markaði hafi hækkað verulega og séu að nálgast 3,5 prósent bæði til millilangs og lengri tíma. „Seðlabankinn þarf því líklega að bregðast við þessari þróun fljótlega – það hlýtur að teljast nær öruggt að hann virkji þjóðhagsvarúðartæki til að stemma af fasteignamarkaðinn sem er aðaldrifkraftur verðbólgunnar og hækkandi verðbólguvæntinga, en ekki er hægt að útiloka að bankinn hækki einnig eitthvað vexti á næstu mánuðum.

Í ljósi þess að um meirihluti íbúðalána í bankakerfinu er óverðtryggður, fyrirtækin skulda flest fljótandi vexti og ríkissjóður er með gríðarlegar fjárhæðir á stuttum gjalddögum, fyrir utan aðra fjármögnunarþörf, er ljóst að vaxtahækkanir verða mjög sársaukafullar á sama tíma og atvinnuleysi er mikið og óvíst hversu mikið opnun ferðaþjónustunnar mun duga til að ná atvinnuleysinu niður á ný,“ segir hann.

Agnar Tómas segir að reyndar séu skuldabréfamarkaðir nú þegar að verðleggja talsverðar vaxtahækkanir, framvirkir vextir á ríkisbréfamarkaði geri ráð fyrir 1,25 prósenta hækkun vaxta til og með næsta hausti og að vextir verði komnir í um þrjú prósent haustið 2023 sem sé um það bil um það leyti sem markaðir telji að Seðlabankinn í Bandaríkjunum muni stíga skref í að hækka vexti úr núll prósentum. „Rætist það er ljóst að það gæti hamlað verulega efnahagsbatanum sem er í spilunum að óbreyttu,“ segir hann.