OECD-ríkin eru með nægar birgðir til að mæta tímabundnum truflunum í innflutningi á olíu. Hærra olíuverð getur þó haft slæmar afleiðingar fyrir alþjóðahagkerfið og er íslenska hagkerfið ekki undanskilið afleiðingunum. Þetta segir Brynjólfur Stefánsson, sjóðstjóri hrávörusjóðs Íslandssjóða.

Olíuverð hækkaði í byrjun vikunnar vegna drónaárása á olíuvinnslustöðvar Aramco í Sádi-Arabíu. Verð á Brent hráolíu stendur í tæplega 65 Bandaríkjadölum en það var um 60 dalir í byrjun vikunnar.

„Í kjölfar árasanna töldu markaðsaðilar að mun lengur tæki að koma framleiðslunni í gang sem hefði haft slæm áhrif á olíuverð til lengri tíma. En til skamms tíma er markaðurinn ágætlega settur til að takast á við svona áföll enda eru t.d. OECD ríkin með nægar birgðir til að mæta tímabundnum truflunum í innflutningi á olíu,“ segir Brynjólfur.

Brynjólfur Stefánsson.jpg

Brynjólfur bætir við að nokkur spenna sé enn á markaðinum og hún tengist ekki síst óvissu um hvernig Bandaríkin og Sádar bregðast við árásunum.

„Almennt hefur óvissa aukist vegna óstöðugleika í Persaflóa og kemur það fram í olíuverði. Því hafa t.d. áhættuþóknanir afleiðusamninga hækkað töluvert. Hærra olíuverð getur haft slæmar afleiðingar fyrir alþjóðahagkerfið. Við Íslendingar erum þar ekki undanskilin.“