Arctic Adventures og framtakssjóðurinn Icelandic Tourism Fund I (ITF) hafa gengið frá samkomulagi um sameiningu Arctic Adventures og Into the Glacier. Kaupin verða greidd með hlutum í Arctic Adventures og stefnt er að skráningu á hlutabréfamarkað innan tveggja ára.

Arctic Adventures kaupir einnig hluti ITF í fjórum afþreyingarfyrirtækjum í ferðaþjónustu: Óbyggðasetri Íslands í Fljótsdal, Raufarhóli ehf., sem rekur ferðaþjónustu í Raufarhólshelli, Skútusiglingum ehf. á Ísafirði, sem starfar undir vörumerkinu Borea Adventures og Welcome Entertainment ehf, sem stendur að leiksýningunni „Icelandic Sagas - The Greatest Hits“ í Hörpu.

Fyrirtækjaráðgjöf Kviku Banka veitti ráðgjöf vegna viðskiptanna og mat verðmæti fyrirtækjanna. Félögin verða áfram rekin sjálfstætt en í nánu samstarfi við Arctic Adventures.

„Samkeppnisstaðan styrkist og við höfum meira að bjóða á alþjóðlega ferðamarkaðnum. Það skiptir mjög miklu að geta boðið ferðafólki fjölbreytta afþreyingu. Við sjáum enn frekari tækifæri til vaxtar á næstu misserum og stefnum ótrauð að skráningu á hlutabréfamarkað innan tveggja ára,“ segir Styrmir Þór Bragason, forstjóri Arctic Adventures.

Into the Glacier, býður upp á ferðir inn í ísgöngin í Langjökli sem eru stærstu manngerðu ísgöng í heimi. Hátt í 60 þúsund manns hafa heimsótt ísgöngin á árinu. Samanlögð velta fyrirtækjanna tveggja á árinu 2019 er um 7 milljarðar króna.

Icelandic Tourism Fund er framtakssjóður rekinn af Landsbréfum, stofnaður að frumkvæði Icelandair Group árið 2013. Markmiðið með stofnun sjóðsins var að fjárfesta í uppbyggingu afþreyingartengdrar ferðaþjónustu á Íslandi.