Meirihlutaeigendur í WOW air og aðrir skuldabréfaeigendur félagsins eru nú í viðræðum um fjárhagslega endurskipuleggingu flugfélagsins. Þetta kemur fram í örstuttri tilkynningu frá WOW air nú rétt í þessu. Markmiðið er að breyta skuldum í hlutafé í félaginu, með það að markmiði að tryggja rekstrargrundvöll þess. „Frekari upplýsingar verða veittar á morgun,“ segir í yfirlýsingunni.

Samkvæmt frétt Fréttablaðsins frá því fyrr í kvöld er Skúli Mogensen eigandi tilbúinn að gefa eftir drjúgan hlut í félaginu, til að þetta geti gengið eftir. Arctica Finance vinnur nú að því hröðum höndum að safna 3,6 milljörðum króna á mettíma, til að setja inn í rekstur WOW. Sú söfnun þoli enga bið. Þá er að því stefnt að Isavia verði reiðubúið að gefa eftir í það minnsta hluta skuldar WOW vegna vangreiddra lendingargjalda.

Sjá einnig: Icelandair slítur viðræðum við WOW air

Stjórnvöld funda nú í kvöld um framtíð félagsins en fulltrúar WOW munu, einnig í kvöld, hitta fulltrúa Samgöngustofu. Þar mun flugrekstrarleyfi félagsins vafalítið bera á góma.

Tilkynningin frá WOW í heild sinni á ensku: “A majority of WOW air Bond Holders and other creditors of WOW air are in advance discussions with the aim of reaching an agreement on a voluntary restructuring including an agreement of converting current debt into equity and fund the company towards long term sustainability. Further information will be given tomorrow.”