Söluverð nýrra íbúða í Reykjavík á fyrstu sjö mánuðum ársins var að meðaltali 51 milljón króna, samkvæmt nýrri greiningu Íbúðalánasjóðs um markað með nýjar íbúðir. Verð annarra íbúða var að meðaltali 46 milljónir.

Fermetrinn á tæpar 600 þúsund krónur

Fermetraverð nýrra íbúða á öðrum ársfjórðungi var að meðaltali um 586 þúsund krónur en í eldri byggingum var fermetraverð um 445 þúsund krónur. Nýbyggingar í Reykjavík voru því að meðaltali um 32 prósent dýrari á hvern fermetra en aðrar íbúðir. 

„Á fyrstu sjö mánuðum þessa árs voru 14 prósent allra íbúðaviðskipta á almennum markaði hér á landi vegna nýbygginga en árið 2010 var hlutfallið 3 prósent. Þegar síðasta uppsveifla náði hámarki árið 2007 var hlutfallið 18 prósent,“ segir í greiningunni.
Í Mosfellsbæ voru um 56 prósent allra íbúðaviðskipta vegna nýbygginga á fyrri helmingi ársins og í Garðabæ var þetta hlutfall 45 prósent. Í Reykjavík voru sex prósent allra íbúðaviðskipta vegna nýrra bygginga. 

Sjá einnig: Fáar íbúðir handa þeim sem eiga lítið eigið fé

Þá eru nýbyggðar íbúðir að jafnaði minni og með færri herbergjum en aðrar íbúðir á markaðnum. Einna minnstar eru nýju íbúðirnar á Akureyri, en þær nýbyggðu íbúðir sem seldust þar á fyrstu sjö mánuðum ársins voru um 82 fermetrar eða 38 fermetrum minni en aðrar seldar íbúðir í bænum. Í Reykjavík voru nýjar íbúðir að meðaltali 89 fermetrar á sama tímabili sem er 20 fermetrum minna en aðrar íbúðir.

Sérstakur skortur á ódýrum íbúðum

Einnig bendir margt til þess að sérstakur skortur sé á minni og hagkvæmum íbúðum á verði sem almenningur ræður við. Minni íbúðir í nýbyggingum eru skemur í sölu og líklegri til að seljast á eða yfir ásettu verði en stærri íbúðir í nýbyggingum. 

„Þrátt fyrir þessa eftirspurn eftir litlum íbúðum er ljóst að fáar af þeim nýbyggingum sem komið hafa á markaðinn að undanförnu henta þeim sem hafa lítið eigið fé til íbúðakaupa. Aðeins 5 prósent nýbygginga á landsvísu hafa verið auglýst á undir 30 milljónum króna það sem af er ári og aðeins 2 prósent þeirra hafa verið auglýst á undir 25 milljónum,“ segir í greiningunni sem lesa má hér.