Samgönguráðherra stefnir að því að leggja fram frumvarp um samvinnuleið (PPP) við fjármögnun samgönguframkvæmda í nóvember. Þetta kom fram í máli Sigurbergs Björnssonar, skrifstofustjóra hjá samgönguráðuneytinu, á ráðstefnu um samvinnuleið við innviðafjarmögnun í Arion banka í gær.

Ráðstefnan var haldin á vegum bankans, breska sendiráðsins á Íslandi og Bresk-íslenska viðskiptaráðsins. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra sagði að frumvarp samgönguráðherra gæti orðið góður grundvöllur að heildstæðri lagasetningu um samvinnuleið.

Benedikt Gíslason, Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, Sigurður Hannesson, Stuart Cairns, lögmaður hjá Bird & Bird, og Ásta Fjeldsted frá Viðskiptaráði.
Mynd/Arion banki

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sagði í Markaðnum á miðvikudag, að samvinnuleið ríkis og einkaaðila við fjármögnun uppbyggingar á innviðum væri góður kostur fyrir ríkið í ljósi þess að hún krefst minni fjármagnsbindingar og flýtir framkvæmdum. Rannsóknir sýni að uppbyggingin með slíkum hætti sé líklegri til að vera á áætlun, bæði hvað varðar tíma og kostnað.

Mynd/Arion banki

„Það er staðreynd að hér á landi er mikil uppsöfnuð þörf fyrir framkvæmdir og uppbyggingu innviða,“ sagði Sigurður og vísaði til skýrslu sem Samtök iðnaðarins birtu fyrir tveimur árum. Þar var uppsöfnuð viðhaldsþörf metin á 372 milljarða króna fyrir utan nýfjárfestingar.

Þá nefndi hann einnig að í skýrslu sem OECD gaf nýlega út hafi komið fram að íslenskir innviðir væru komnir að þolmörkum.

„Þetta hefur áhrif á framleiðni vegna þess að innviðir leggja grunn að verðmætasköpun hagkerfisins. Góðir samgönguinnviðir nýtast til að mynda greinum eins og ferðaþjónustunni til að skapa verðmæti og útflutningstekjur,“ segir Sigurður.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, sem var á meðal fyrirlesara á ráðstefnunni, sagði í Markaðnum á miðvikudag að í ljósi lækkandi vaxta hér á landi eigi innviðafjárfestingar að geta verið áhugaverður kostur fyrir stofnanafjárfesta.