Mussila hefur tekið yfir rekstur Orðagulls. Á næstu mánuðum verður unnið að því að þýða smáforritið í því skyni að hefja sókn á erlendan markað. Höfundar Orðagulls verða hluthafar í Mussila. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Í kjölfarið mun Mussila hefja þróun á Menntatæknisvettvangi þar sem boðið verður upp á tungumálakennslu og tónlistarkennslu á sama stað en fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl tungumáls og tónlistar.

Mussila hefur undanfarin ár þróað og selt alþjóðlega tónlistar- og kennsluforritið Mussila Music School og þróað lestrar- og málörvunar smáforritið Orðagull fyrir íslenskan markað.

Sérkennarar og talmeinafræðingar

Höfundar Orðagulls eru sérkennarar og talmeinafræðingar, Bjartey Sigurðardóttir og Ásthildur Bj. Snorradóttir. Árið 2016 fengu þær Mussila til að þróa bókina Orðagull fyrir stafræna miðla. Höfundar Orðagulls hafa báðar áratugareynslu af því að vinna með börn með málþroskafrávik og námserfiðleika. Þær hafa komið að útgáfu málörvunarefnis fyrir börn, auk þess að hafa tekið þátt í gerð ýmissa þróunarverkefna, prófa og skimunartækja.

„Það er okkar trú að lausnin sem er að finna í Orðagulli hafi mikla möguleika á alþjóðlegum markaði. Með aðstoð Orðagulls munu fleiri börn geta lesið sér til gagns og færri munu falla út úr skólakerfinu. Þannig verða börnin betur í stakk búin til að mæta krefjandi áskorunum tuttugustu og fyrstu aldarinnar,“ segir Jón Gunnar Þórðarson, framkvæmdastjóri Mussila, í tilkynnigunni.

Fram kemur í tilkynningunni að skort hafi stafrænt kennsluefni til að efla málþroska, heyrnræna úrvinnslu og vinnsluminni. COVID-19 heimsfaraldurinn hafi gert það að verkum að þörfin varð enn meiri. Skólar víðsvegar um heiminn höfðu til að athuga hvort Mussila byði upp á lausn í tónlistarkennslu með fjöldaaðgangsstýringu fyrir kennara. Fyrirtækið innleiddi það kerfi og nú sé boðið upp á slíka útfærslu með möguleika á fjarkennslu (e. remote learning).

Minnst 100 milljón króna fjármögnun í farvatninu

Mussila vinnur að því að afla sér aukins fjármagns á Funderbeam. Horft er til þess að sækja í það minnsta 100 milljónir króna. Tilgangur fjármögnunarinnar er að auka vöruúrval og efla vöxt. Samningurinn um yfirtökuna á Orðagulli er liður í þeirri vegferð.