Hrönn V. Runólfs­dóttir, gæða- og um­bóta­stjóri hjá not­enda­lausnum Origo, segir að fjar­lausnir muni halda á­fram að aukast á þessu ári sem og notkun á gervi­greind í öllum geirum.

,,Eftir Co­vid þá munum við fara til baka inn í breyttan heim þar sem tæknin mun leika enn stærra hlut­verk en áður. Með hjálp tækninnar munum við eiga auð­veldar með að að­lagast nýjum raun­veru­leika. Ég tel að notkun á ýmis­konar fjar­lausnum eigi eftir að halda á­fram að aukast og hafa bein á­hrif á okkar dag­lega líf," segir Hrönn.

Hrönn telur að heimurinn verði breyttur hvað varðar fjar- og stað­vinnu eftir kórónu­veiruna. Hún minnist á „hybrid-vinnu­staði“ og „hybrid-kennslu­stofur“ þar sem hluti nem­enda eða starfs­fólks mætir í skóla eða vinnu á meðan aðrir eru heima.

Hrönn segir að það sé mikil­vægt í fjar-vinnu og -kennslu að fólk fái ekki þá upp­lifun að það sé að missa af ein­hverju ef það er ekki á staðnum.

„Þá þarf tæknin að vera orðin svo góð og þannig spilar tæknin oft stórt hlut­verk í að koma í veg fyrir að fólki líði þannig,“ segir Hrönn.

Hún tekur sem dæmi ef maður mætir raf­rænt á fund sem maður hefði annars mætt á í raun­heimi þá líði manni kannski eins og maður sé að missa af spjallinu sem stundum er fyrir fund eða eftir.

„Þetta er á­kveðin tog­streita,“ segir Hrönn.

Hún segir að mörg fyrir­tæki séu komin vel á veg með þróun lausna til að koma í veg fyrir að fólk líði þannig og nefnir sem dæmi að á nám­skeiði sem hún sótti komu stundum aldrei neinir í hús því á milli kennslu­stunda var fólkið boðið að spjalla í sér­stöku „her­bergi“ raf­rænt.

„Þar kynntist fólk og var að spjalla. Þetta er svo mikil­vægt upp á mynda tengsla­net,“ segir Hrönn.

Mörg tæki sem við notum í dag eru nettengd.
Fréttablaðið/Getty

Auking notkun á gervigreind

Hún segir að sam­hliða þessu muni einnig aukast notkun á gervi­greind og notkun á vörum sem eru tengdar við netið.

,,Við munum halda á­fram að sjá aukna notkun á gervi­greind (e. Artificial Intelli­gence) í öllum geirum. Hún gerir okkur kleift að sjálf­virkni­væða ýmis­legt út frá gögnum, spá fyrir um stefnu og þróun, og þar af leiðandi getum við brugðist við strax. Nú eru flest fyrir­tæki farin að hugsa um staf­ræna um­breytingu og með hjálp gervi­greindar geta fyrir­tæki og stofnanir sjálf­virkni­vætt á­kveðna starf­semi hjá sér. Sem dæmi hafa fjöl­mörg fyrir­tæki tekið upp spjall­menni á heima­síðum sínum sem svara spurningum við­skipta­vinarins í stað þjónustu­ráð­gjafa," segir hún.

Við­bættur veru­leiki getur til að mynda sett kennsluna í sam­hengi, dýpkað og gert hana skemmti­legri þar sem auka upp­lýsingar birtast notandanum á meðan hann er að nota appið, gler­augun eða það sem er verið að nota hverju sinni

Oft ruglað saman AR og VR

Hrönn nefnir að oft sé ruglað saman við­bættum veru­leika (AR) og sýndar­veru­leika (VR). Við­bættur veru­leiki bætir við raun­veru­leikann á meðan sýndar­veru­leiki tekur hann alveg yfir.

,,Við munum sjá aukningu af hvoru tveggja, í kennslu, tölvu­leikjum, heil­brigðis­þjónustu, verk­fræði og við­skiptum. Við­bættur veru­leiki getur til að mynda sett kennsluna í sam­hengi, dýpkað og gert hana skemmti­legri þar sem auka upp­lýsingar birtast notandanum á meðan hann er að nota appið, gler­augun eða það sem er verið að nota hverju sinni. Dæmi um þetta eru ýmis­konar filterar í öppum eins og Snapchat."

Hún segir að nú þegar sé sýndar­veru­leiki (VR) notaður mikið í tölvu­leikjum og tölu­vert í kennslu.

,,Í dag er hægt að fara í vett­vangs­ferðir á söfn í gegnum sýndar­veru­leika og hann er notaður í þjálfun í læknis­fræði, við endur­hæfingu og í her­mun í flugi. Að geta skoðað inn í manns­líkamann, farið inn í tæki, ofan í sjó, upp í geim, inn í for­tíðina og inn í ó­byggð hús gefur ó­endan­lega mögu­leika. Við erum farin að sjá Inter­net hlutanna (e. Inter­net of Things / IoT) í ó­trú­legustu hlutum. Sí­fellt fleiri hlutir eru tengdir við netið inni á heimilum okkar. Til að mynda eru all­mörg heimili með net­tengdar ljósa­perur og ís­skápa. Þetta á bara eftir að aukast,” segir Hrönn að lokum.