Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að Seðlabankinn hafi áhyggjur af því að bankarnir muni ekki veita nægjanlega miklu lausafé út í atvinnulífið vegna þess að þeir hafi ekki hvata til þess. Af þeim sökum hafi verið talið nauðsynlegt að bankinn hefji kaup á ríkisskuldabréfum. Kaupin létti á fjármögnun fyrirtækja sem sæki sér fé á skuldabréfamarkaði.

„Við munum sjá til þess að það verði nægt lausafé til staðar,“ segir Ásgeir í samtali við Markaðinn.

Hann útilokar ekki að umfang fyrirhugaðra skuldabréfakaupa verði aukið ef bankarnir taka ekki við sér í útlánum og peningamagn í umferð dregst verulega saman.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir að þær sviðsmyndir um möguleg efnahagsáhrif kórónaveirunnar sem samtökin horfi til séu mun svartsýnni en þær sviðsmyndir sem Seðlabankinn hafi kynnt í gær.

Svartsýna sviðsmynd bankans, sem gerir ráð fyrir allt að fimm prósenta samdrætti í landsframleiðslu í ár, er „að mínu mati hin bjartsýna sviðsmynd sem við ættum að horfa til en ekki sú svartsýna“, segir hún.

„Miðað við stöðuna sem blasir við er ég hrædd um að samdrátturinn geti orðið enn meiri en Seðlabankinn teiknar upp,“ segir Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka.

Á fundi Seðlabankans í gærmorgun sagði Ásgeir að bankinn hefði heimild til þess að kaupa ríkisskuldabréf á markaði fyrir 150 milljarða króna. Unnið væri að útfærslu kaupanna í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðuneytið og ríkisstjórnina.

Vilja fara varlega

Hann segir geta komið til greina að auka umfang kaupanna ef aðstæður kalli á það.

„Umfang kaupanna nemur um fimm prósentum af landsframleiðslu en til samanburðar boðaði Seðlabanki Nýja-Sjálands á sama tíma kaup á skuldabréfum sem jafngildir um tíu prósent af landsframleiðslu.

Við viljum hins vegar fara varlega í þessar aðgerðir til að byrja með og sjá hvernig skuldabréfamarkaðurinn bregst við. Frekari aðgerðir kæmu þá til skoðunar í samhengi við þróun mála í fjármálakerfinu eftir að svigrúm þess til að auka útlán hefur verið aukið til muna með afléttingu sveiflujöfnunaraukans og lækkun bindiskyldunnar,“ nefnir Ásgeir.

Erna Björg segir lítið hægt að segja um áform Seðlabankans á þessari stundu af því að það liggi lítið fyrir um þann ramma sem bankinn muni vinna eftir, svo sem um upphæðir og tímalengd.

Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka.

„Það er jákvætt að bankinn sýni sveigjanleika, samanber tilkynninguna á mánudagsmorgun, en þó eru vissulega ákveðin vonbrigði að nánari útlistun hafi ekki legið fyrir fyrst boðað var til fundar í gær,“ nefnir hún.

Aðspurður hvort ekki þurfi að grípa til markvissari aðgerða til þess að bregðast við lausafjárþurrð í hagkerfinu segir Ásgeir það mögulega geta þurft.

„Bankarnir eru fullir af lausafé vegna þeirra aðgerða sem við höfum gripið til að undanförnu en markmiðið með boðuðum skuldabréfakaupum er að halda niðri skuldabréfavöxtum og eins að tryggja nægt lausafé með því að koma í veg fyrir að það verði þurrkað upp af ríkissjóði vegna fyrirséðs halla á rekstri þess á árinu. En við munum sjá til þess að það verði nægt lausafé til staðar,“ segir hann.

Svartsýna myndin bjartsýn

Áðurnefnd sviðsmyndagreining Seðlabankans gerir ráð fyrir að landsframleiðsla dragist saman um 2,4 til 4,8 prósent í ár en til samanburðar var gert ráð fyrir 0,8 prósenta hagvexti í febrúarspá bankans.

Í sviðsmyndum bankans er jafnframt miðað við að atvinnuleysi verði á bilinu 5,7 til 7,0 prósent á þessu ári borið saman við fyrri spá upp á 4,2 prósenta atvinnuleysi.

Mildari sviðsmynd bankans gerir ráð fyrir að ferðamönnum fækki um ríflega þriðjung frá því í fyrra en sú dekkri að ferðamönnum fækki um ríflega fimmtíu prósent á milli ára sem samsvarar ríflega fimmtungssamdrætti í útflutningi á vöru og þjónustu.

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, áréttaði þó á fundinum að ekki væri um að ræða spá, heldur sviðsmyndir sem gæfu hugmyndir um hve mikil efnahagsáhrif faraldursins geti orðið.

Ásdís segir sviðsmyndagreininguna hafa komið nokkuð á óvart.

„Þrátt fyrir að aðgerðir stjórnvalda og Seðlabankans séu til þess fallnar að milda höggið,“ útskýrir hún, „er staðan samt mjög alvarleg. Nær hvergi í heiminum vegur ferðaþjónustan eins þungt í heildarútflutningi en á Íslandi. Ferðaþjónustan er að þurrkast nánast út í nokkra mánuði og efnahagslegt tjón af því einu er gríðarlegt.

Ferðaþjónustan er að þurrkast út í nokkra mánuði og efnahagslegt tjón af því einu er gríðarlegt.

Þá er á sama tíma innlend neysla heimila fyrir utan matvörur nánast engin. Aðrar útflutningsgreinar eru farnar að finna fyrir samdrætti á sama tíma eins og til dæmis sjávarútvegurinn. Störf eru að glatast og önnur störf að breytast í hlutastörf með tilheyrandi tekjuskerðingu. Þegar faraldurinn er yfirstaðinn þá mun taka tíma að vinna til baka framleiðslutapið,“ nefnir hún.

Svartsýna sviðsmynd Seðlabankans sé því í raun sú bjartsýna sviðsmynd sem horfa ætti til.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.

Erna Björg segir aðstæðurnar slíkar og óvissuna það mikla „að það veit í sjálfu sér enginn hve mikil efnahagsáhrifin verða. Ég óttast samt að jafnvel svartsýnasta sviðsmynd Seðlabankans sé ekki nógu svartsýn. Það eru ýmsir undirliðir í sviðsmyndum bankans sem maður veltir fyrir sér hvort geti í raun staðist.“