Verka­lýðs­fé­lögin eru afar ó­sátt við hug­myndir Icelandair um að ráða til sín flug­freyjur sem standa utan Flug­freyju­fé­lags Ís­lands (FFÍ). Al­þýðu­sam­band Ís­lands (ASÍ) og VR segja að líf­eyris­sjóðirnir muni ekki fjár­festa í fé­laginu fari það þessa leið. Einnig verði gerð krafa til stjórn­valda um að koma ekki með fjár­magn inn í fé­lög sem nýta sér starfs­manna­leigur.


Markaðurinn greindi frá því í Frétta­blaðinu í morgun að Icelandair Group gæti látið reyna á kjara­samnings­á­kvæði fyrir fé­lags­dómi, svo unnt væri að ráða flug­freyjur sem standa utan FFÍ. Sam­kvæmt heimildum Markaðarins munu stjórn­endur Icelandair í­huga þennan val­mögu­leika ef samningar nást ekki við FFÍ. Samninga­nefnd Icelandair og FFÍ funda nú hjá ríkis­sátta­semjara um nýja kjara­samninga en við­ræður síðustu vikur hafa gengið illa og mjakast hægt á­fram. Má ætla að fréttirnar setji sinn lit á fundinn í dag.

FFÍ er aðildar­fé­lag ASÍ og segir Drífa Snæ­dal, for­seti ASÍ, í sam­tali við Frétta­blaðið fréttir af þessum hug­myndum Icelandair séu hræði­legar. „Það er al­gjör­lega ó­trú­legt að Icelandair sé að fara fram hjá öllum heiðar­legum reglum vinnu­markaðarins,“ segir hún. „Ég sé ekki betur á þessum fréttum en að Icelandair sé að fara að stofna stéttar­fé­lag og það verður að hafa í huga að stéttar­fé­lög eru fé­lög launa­fólks en ekki fyrir­tækja.“


„Þannig að það er eins gott að Icelandair fari að ein­beita sér að því að ná samningum við flug­freyjur í staðinn fyrir að vera í ein­hverjum svona æfingum. Þetta verður ekki látið ó­á­talið,“ heldur hún á­fram.

Drífa segir Icelandair eiga að einbeita sér að því að ná samningum við flugfreyjur.
Fréttablaðið/Anton Brink

Hafa neitunarvald


Verka­lýðs­fé­lögin munu beita sér fyrir því að hvorki líf­eyris­sjóðir né stjórn­völd komi með fjár­magn inn í Icelandair ætli fé­lagið sér að fara þessa leið. Krafa um þetta verður gerð til stjórn­valda að sögn Drífu en þegar kemur að al­mennu líf­eyris­sjóðunum, sem eru ein­mitt stærstu hlut­hafar Icelandair, eiga verka­lýðs­fé­lögin helming stjórnar­sæta og hafa því neitunar­vald. Drífa og Ragnar Þór Ingólfs­son, for­maður VR, segja það alveg ljóst að þau munu beita því valdi ef líf­eyris­sjóðirnir ætla að leggja meira fjár­magn í Icelandair fari fé­lagið þessa leið. Stór hluti starfs­fólks Icelandair, til dæmis skrif­stofu­starfs­fólk, er fé­lags­menn í VR.


„Auð­vitað getum við beitt okkur með þeim hætti og við eigum að gera það. Ég hef talað fyrir því í mörg ár,“ segir Ragnar Þór og fangar því ein­dregið að ASÍ taki nú í sama streng. Sam­bandið segir hann ekki hafa gert það undan­farin ár. „Meira að segja eru til reglur, eins og ESG reglur Sam­einuðu þjóðanna, um sið­ferðis­leg við­mið í fjár­festingum. Við eigum að vera þar fremst í flokki og segja: ef að fyrir­tækin ætla að haga sér svona og ganga frek­lega á réttindi og lífs­kjör fólks þá verði það alla­vega ekki til þess að líf­eyris­sjóðunum verði gefin heimild til að fjár­festa í slíkum sjóðum.“

Ragnar hefur lengi talað fyrir því að verkalýðsfélögin fari þessa leið.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Hann segir vandann þannig alls ekki bundinn við Icelandair og fyrir­ætlanir fé­lagsins, sem hann segir í takti við það sem verka­lýðs­fé­lögin eru að upp­lifa al­mennt í sam­skiptum við fyrir­tæki landsins. Hann vill beita þessu neitunar­valdi verka­lýðs­fé­laganna í stjórn al­mennu líf­eyris­sjóðanna til að koma í veg fyrir allar fjár­festingar í fyrir­tækjum sem brjóta á réttindum fólks og reyna að finna leiðir fram hjá kjara­samningum. Al­mennu sjóðirnir eru stærstu eig­endur skráðra fyrir­tækja á Ís­landi.


„Fyrir­tæki eru búin að vera að heyja heilagt stríð gegn verka­lýðs­hreyfingunni með stuðningi Sam­taka at­vinnu­lífsins. Þannig þetta er í sjálfu sér alveg í takti við það sem við höfum verið að upp­lifa. Hér eru fyrir­tækin að nýta sér þetta á­stand til að ganga á réttindi starfs­fólks al­mennt og láta reyna á alla mögu­lega þætti okkar kjara­samnings og laga til að skerða réttindi og kjör,“ segir Ragnar.


„Það er verið að miða við lægsta sam­nefnara hjá ein­hverjum harð­svíruðustu lág­gjalda­flug­fé­lögunum í nafni ein­hverrar al­þjóða­væðingar og sam­keppnis­hæfni. Svo er það borið saman við vinnu­markaðinn hérna til að þrýsta honum niður bæði í kjörum og réttindum,“ heldur hann á­fram og segir að verði það gert hjá einu stóru fyrir­tæki muni það vera ansi fljótt að skila sér niður stigann og skerða réttindi alls launa­fólks. „Það er þróun sem ég hef veru­legar á­hyggjur af.“


Ekki náðist í Guð­laugu Lín­eyju Jóhanns­dóttur, for­mann FFÍ, við gerð fréttarinnar. Samninga­nefnd FFÍ situr nú á fundi með samninga­nefnd Icelandair hjá ríkis­sátta­semjara og má ætla að hún sé þar. Fundurinn hófst klukkan 9 í morgun.