Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, segir í samtali við Markaðinn að það að bjóða upp á íslenskt gæðaefni sé eina samkeppnisstaðan sem íslenskir fjölmiðlar hafa.

„Það er þannig að það að bjóða upp á íslenskt gæðaefni er í raun eina samkeppnisstaðan sem íslenskir fjölmiðlar hafa því það hefur verið svo mikill vöxtur í þessum erlendu efnisveitum að það sem eftir stendur fyrir smærri efnisveitur er minna og þá skiptir öllu að hafa reynda innkaupaaðila með langa reynslu,“ segir Heiðar og bætir við að mikið af efninu sem efnisveita Sýnar býður upp á hafi þau framleitt sjálf.

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar.

„Áður en efnisveitur komu til sögunnar fylgdu sjónvarpsstöðvar ákveðnum tískubylgjum, eins og þegar Stöð 2 kom til sögunnar þá var búið að svelta Íslendinga af amerísku sjónvarpsefni. Síðan fékk fólk leið á því efni og þeir sem horfa hvað mest á erlendar efnisveitur þrá íslenskt efni. Hjá Stöð 2 höfum við framleitt umtalsvert meira af íslensku efni en Ríkisútvarpið.“

Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri hjá Símanum, segir að Síminn leitist eftir því að bjóða upp á blöndu af bæði innlendu og erlendu efni. „Það eru allir að bjóða upp á einhverja blöndu af innlendu og erlendu efni og það er miklu ódýrara klukkutímaverðið á erlendu þáttunum en á innlendum. En á móti kemur að maður fær meiri auglýsingatekjur af innlenda efninu. Samsetningin fer líka mikið eftir því hvort maður sé í áskriftarmódeli eða frímódeli.“

Hann bætir við að auglýsendur séu sérstaklega áhugasamir um að auglýsa í íslensku gæðaefni. „Auglýsendur eru í grunninn að kaupa augu og vilja tryggja að það séu ákveðið margir í ákveðnum markhópi sem sjá auglýsinguna. Það gefur líka augaleið að auglýsendur vilja frekar auglýsa í gæðaefni og þeir eru sérstaklega áhugasamir um íslenskt efni.“

Heiðar segir að auglýsendur einbeiti sér mikið að einstaka markhópum. „Auglýsendur eru með ákveðna markhópa. Til dæmis vilja ákveðnir auglýsendur auglýsa í Pepsi Max-boltanum en á meðan eru svona stærri skemmtiþættir eins og Stóra sviðið sem er að fara af stað á næstunni, þeir þættir ná til miklu breiðari hóps svo það er mikill áhugi á að auglýsa í þeim.“

Magnús og Heiðar segja báðir að það sé afar erfitt að fá sýningarrétt á stóru erlendu sjónvarpsseríunum.„Það er orðið mjög erfitt að komast í stóra efnið sem verður til í stúdíóunum í Los Angeles því þau eru öll farin að selja í gegnum eigin öpp,“ segir Magnús.

Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri hjá Símanum.

Hann segir jafnframt að mun meira sé horft á innlent leikið efni en á það erlenda. „Áhorf á innlent leikið efni er um 5-6 sinnum meira heldur en erlent efni. En síðan eru frávik frá þessu eins og áhorf á seríur á borð við Bachelor og Love Island er gríðarlega mikið, en það eru ekki margir slíkir þættir. Ef maður finnur viðlíka efni er það virkilega hagstætt því hægt er að kaupa þetta efni á lágu verði en á sama tíma fær það mikið áhorf og þar með miklar auglýsingatekjur.“

Hann bætir við að Sjónvarp Símans leggi áherslu á að höfða til breiðs hóps í streymisveitunni. „Í Premium þjónustunni þurfum við að ná til allra á heimilinu. En á frírásinni aftur á móti reynum við helst að ná til kvenna á aldrinum 25-45 ára því auglýsingalega séð er mestar tekjur að hafa þar. En auðvitað einskorðum við okkur ekki við það því við erum líka með sérrásir fyrir enska boltann sem nær til annars hóps.“

Heiðar segir að hjá Sýn hafi verið sýnt mikið efni frá erlendu streymisveitunum áður en þær fóru af stað með sínar eigin efnisveitur.

„Áður en HBO og Warner fóru af stað með sínar eigin efnisveitur vorum við að sýna efni frá þeim, eins og til dæmis Friends-þætti, en núna frá og með áramótunum verður þetta allt saman inni á þeirra eigin efnisveitum en við sjáum að áhorfið á þessa þætti er sáralítið þannig að við söknum þess ekkert sérstaklega,“ segir Heiðar og bætir við að það sé ámælisvert að ekki séu settar kvaðir á erlendar streymisveitur til að talsetja efni.

„Það sem er ósanngjarnt í þessu er að við erum tilneydd til að talsetja allt barnaefni og texta allt efni meðan erlendu streymisveiturnar gera hvorugt og kæra sig kollóttar. Sá sem ber ábyrgð á þessu er menntamálaráðherra og þau í menntamálaráðuneytinu horfa í gegnum fingur sér með þetta. Maður í raun skilur ekki þessa afstöðu því þetta skiptir svo miklu máli upp á íslenska tungu,“ segir Heiðar.

Hann segir jafnframt að Sýn taki menningarlegt hlutverk sitt mjög alvarlega. „Við tökum okkar menningarlega hlutverk mjög alvarlega og viljum vera með fjölbreytt efni. Við erum að kaupa efni bæði til að sýna í línulegri dagskrá en líka til að setja á efnisveituna okkar og þá skiptir miklu máli að vera með svokallað „evergreen“ efni, það er að segja efni sem lifir lengi. Einhver þáttur þar sem er aðeins verið að tala um málefni líðandi stundar hentar ekki í efnisveituna en þættir sem eru tímalausir eins og til dæmis skemmtiþættir eru miklu betri fjárfesting.“