Horfur eru á að raforkuverð haldist lágt á Norðurlöndum á næstu árum sökum mikillar vætutíðar síðastliðna tvo vetur í Noregi og mikillar framboðsaukningar á vindorku. Sökum þessara markaðsaðstæðna er nú þegar hægt að gera fimm ára orkusölusamninga í Noregi á verði undir 30 dölum á megavattstundina að flutningskostnaði meðtöldum. Þetta er mat Helge Haugland, sem er orkumiðlari hjá norska fyrirtækinu Energi Salg Norge AS, sem hefur milligöngu um kaup og sölu um 30 teravattstunda á hverju ári, sem er um það bil tvöfalt meira en öll framleiðsla Landsvirkjunar.

„Eins og verðin eru núna væri hægt að ganga frá samningi á föstu verði til tveggja og allt að fimm ára á innan við 30 dali á megavattstund,“ segir Helge. Staða uppistöðulóna í Noregi sé með þeim hætti að langan tíma muni taka að vinna hana niður. Norðmenn upplifa nú annan milda veturinn í röð samfara mikilli úrkomu, sem hefur gert að verkum að nánast öll uppistöðulón vatnsaflsvirkjana landsins eru þegar komin á yfirfall.

Að sama skapi sé mikil framboðsaukning vindorku í pípunum, en framleiðsla vindorku mun aukast um meira en 50 prósent á Norðurlöndunum fram til ársins 2024 og heildarframleiðsla ná hátt í 100 teravattstundum á ári, samkvæmt spá orkugreiningarfyrirtækisins Wattsight.

Í nýlegri skýrslu þýska ráðgjafarfyrirtækisins Fraunhofer var ein meginniðurstaðna sú að fram til ársins 2019 hefði raforkuverð stórnotenda á Íslandi ekki verið til þess fallið að draga úr samkeppnishæfni orkusækins iðnaðar hér á landi. Gagnrýnendur skýrslunnar bentu á það að markaðsaðstæður væru einfaldlega gjörbreyttar í dag. Þó svo að raforkuverð á Íslandi hefði verið samkeppnishæft á síðustu árum, segði það lítið um samkeppnishæfni íslenskrar raforku í dag og litið til framtíðar.

Samtök álframleiðanda á Íslandi sögðu í tilkynningu eftir útkomu skýrslunnar að „Landsvirkjun hefði gefið út að fyrirtækið sé bundið „kostnaðarverði“, en í því er meðal annars tekið tillit til 7,5 prósent arðsemiskröfu ríkisins. Það kostnaðarverð sé á bilinu 28 til 35 dollarar á megavattstundina og því mun hærra en það meðalorkuverð sem stuðst er við í skýrslu Fraunhofer.“

Forsvarsmenn Landsvirkjunar hafa einnig talað um að stefnan sé að selja raforku sem fyrirtækið framleiðir á 30 til 45 dali, en sú tala inniheldur ekki flutningskostnað sem er jafnan sex dalir á megavattstundina.

Aðspurður hvort breyttar horfur á norrænum raforkumarkaði kalli á endurskoðun verðstefnu Landsvirkjunar segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, svo vera til skemmri tíma en ekki endilega til lengri tíma.

„Til skemmri tíma erum við að koma til móts við viðskiptavini okkar með verðlækkunum og auknum sveigjanleika í samningum.“ Hin mikla umframorka sem sé í boði á Norðurlöndunum muni dragast saman, enda borgi það sig ekki fyrir nokkurn framleiðanda að selja rafmagn á núverandi stundarverðum (e. spot).

„Fyrir mánuði voru til dæmis framvirk raforkuverð um 25 evrur en búast má við að verðin sveiflist áfram. Ef verðið helst mjög lágt er líka líklegt að lokun kjarnorkuvera í Svíþjóð verði flýtt og þar af leiðandi mun draga úr þessu offramboði. Tveir stórir sæstrengir frá Noregi til Þýskalands og Bretlands munu líka fljótlega verða teknir í notkun. En því er hins vegar ekki að neita að árin 2020 og 2021 eru mun erfiðari viðfangs en árið 2019, það á við alla markaði og þar eru Landsvirkjun og viðskiptavinir hennar ekki undanskilin,“ segir Hörður.

Ég á erfitt með skilja hvers vegna Norðurál vill núna opna samninga en vill ekki birta upplýsingar sem óháður aðili setur fram.


Í kjölfar birtingar skýrslu Fraunhofer sendi Norðurál út tilkynningu þess efnis að fyrirtækið væri reiðubúið að aflétta trúnaði á sínum orkukaupasamningum. Hörður segist ekki reikna með öðru en að það verði samþykkt af hálfu Landsvirkjunar, en það gæti tekið nokkrar vikur enda þurfi samþykki stjórnar vegna afléttingar trúnaðarskilmála orkusölusamninga.

„Norðurál virðist hins vegar vera á móti því að birta mikilvægar upplýsingar um samkeppnishæfni orkuverðs á Íslandi sem fram koma í skýrslu Fraunhofer. Ég á erfitt með skilja hvers vegna Norðurál vill núna opna samninga en vill ekki birta upplýsingar sem óháður aðili setur fram, sem hafði afrit af samningnum og gerði vandaða samanburðargreiningu á honum.“

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir Norðurál virðast vera á móti því að birta mikilvægar upplýsingar um samkeppnishæfni orkuverðs á Íslandi sem fram koma í skýrslu Fraunhofer.

Var vísan í samning Landsvirkjunar og Norðuráls sem var undirritaður 2016


Í viðtali í Bítinu á Bylgjunni á mánudag síðastliðinn sagði Hörður Arnarson að Norðurál hefði nýlega samið við Landsvirkjun um aukin orkukaup. Meðal annars sagði hann: „Norðurál var að færa núna orkukaup frá sér 1. nóvember, eins og ég sagði áðan, þá voru þeir að hætta að kaupa um 50 megavött af [öðrum] framleiðendum og semja við okkur í þessum ósanngjörnu samningum okkar. Hvernig stendur á því, af hverju sömdu þeir ekki áfram við hin fyrirtækin?“

Aðspurður um þessi ummæli segir Hörður að þarna hafi hann verið að vísa til raforkusamnings Landsvirkjunar og Norðuráls sem undirritaður var árið 2016 og tók gildi í nóvember 2019. Áður hefði Landsvirkjun í samningi frá 1997 verið milligönguaðili fyrir Orkuveitu Reykjavíkur og HS Orku í viðskiptum þeirra við Norðurál, en í samningnum sem undirritaður var 2016 ákvað Norðurál að kaupa alla orkuna af Landsvirkjun.

Samningurinn frá 2016 er tengdur NordPool-raforkumarkaðnum. Þegar samningaviðræðurnar stóðu yfir var verðið á Nordpool um 20 evrur, verðið hækkaði síðan á árunum 2016 til 2019, lá á bilinu 27 til 40 evrur á megavattstundina, en markaðurinn hrundi hins vegar á árinu 2020 og fór nálægt núlli yfir sumarmánuðina. Verðið tók að stíga eftir því sem rafmagnsnotkun jókst á haustmánuðum, en sökum hárrar vatnsstöðu í norskum uppistöðulónum og minni rafmagnsnotkunar vegna sóttvarnaaðgerða í flestum löndum hefur verðið aftur sigið niður og stendur nú í tveimur evrum.

Landsvirkjun keypti engar áhættuvarnir vegna samningsins við Norðurál framan af yfirstandandi ári, en að sögn Harðar hefur fyrirtækið nú varið samninginn við Norðurál að umtalsverðum hluta bæði fyrir fjórða ársfjórðung þessa árs og fyrir næsta ár.