Samtök iðnaðarins styðja frumvarp Viðreisnar um að hækkun á endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar verði varanlega fest í lög. Áður var um tímabundið ákvæði að ræða.

„Fyrirsjáanleiki skiptir sköpum í rekstri fyrirtækja. Lagabreytingin mun auka líkurnar á að fyrirtæki blási til sóknar í nýsköpun hér á landi og að erlend fjárfesting leiti til Íslands,“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs samtakanna, í samtali við Markaðinn.

Stjórnvöld þurfa að senda skýr skilaboð

„Stjórnvöld þurfa að senda skýr skilaboð um að þau muni halda áfram á þessari braut. Þetta er fjárfesting í hagvexti framtíðar,“ segir hún.

Sigríður bendir á að í maí 2020 hafi stjórnvöld og Alþingi stigið skref í auknum stuðningi við nýsköpun með því að efla skattahvata vegna rannsókna og þróunar. „Ríkisstjórnin á hrós skilið fyrir þessar aðgerðir á tímum efnahagsóvissu og þingheimur allur fyrir mikinn stuðning við þær,“ segir hún.

Breytingarnar fólu í sér að endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar hjá stórum fyrirtækjum var hækkað úr 20 í 25 prósent upp að 1,1 milljarði króna en hlutfallið sé allt að 35 prósent hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Að sögn Sigríðar eru fjölmörg dæmi um fyrirtæki í hugverkaiðnaði sem réðust í auknar fjárfestingar við þessar breytingar enda séu þær hvati til vaxtar. Við það hafi ný og verðmæt störf orðið til. Dæmi um þetta séu CCP og Nox Medical.

Met slegið í fjárfestingu í nýsköpun árið 2020

„Sóknarleikur stjórnvalda hefur nú þegar skilað árangri. Það bendir margt til að á árinu 2020 hafi verið slegið met í fjárfestingu í nýsköpun hér á landi, en opinberar tölur um þetta liggja ekki enn fyrir,“ segir hún og bendir á að hugverkaiðnaður hafi skapað um 16 prósent af útflutningstekjum þjóðarbúsins árið 2020.

Aðspurð um fyrirkomulagið segir hún að Rannís verði að staðfesta að um nýsköpunarverkefni sé að ræða áður en fyrirtækin fái endurgreiðslu frá Ríkisskattstjóra.