Frá og með deginum í dag er hægt að sækja um við­spyrnu­styrki hjá Skattinum. Styrkirnir gilda vegna tekju­falls á tíma­bilinu frá 1. nóvember 2020 til 31. maí 2021 og geta verið allt að 2,5 milljónir á mánuði.

Í til­kynningu kemur fram að styrkjunum er ætlað að styðja fyrir­tæki og ein­yrkja sem hafa orðið fyrir að minnsta kosti 60 prósent tekju­falli vegna heims­far­aldurs kórónu­veiru. Mark­miðið með styrkjunum er að rekstrar­aðilar geti við­haldið nauð­syn­legri lág­marks­starf­semi á meðan á­hrifa far­aldursins gætir, varð­veitt við­skipta­sam­bönd og tryggt við­búnað þegar úr rætist.

Þar kemur einnig fram að undan­förnu hafi tugir milljarða verið greiddir í fjöl­breyttan stuðning í úr­ræðum ríkis­stjórnarinnar vegna far­aldursins. Þau eru á annan tug talsins – styrkir, lán, gjald­frestir og annað sem á fjórða þúsund rekstrar­aðilar og tug­þúsundir ein­stak­linga hafa nýtt. Frá því í janúar hafa um 1.550 rekstrar­aðilar fengið um 8,3 milljarða króna greidda í tekju­falls­styrki, en þeir gagnast rekstrar­aðilum sem orðið hafa fyrir veru­legu tekju­falli í heims­far­aldrinum og er mark­miðið að við­halda at­vinnu­stigi og efna­hags­um­svifum með því að styðja þau fyrir­tæki og ein­yrkja þar sem tekju­fall er meira en 40 prósent.

Tæpir sex milljarðar endur­greiddir auka­lega af virðis­auka­skatti

Þá hefur um 2,1 milljarður króna verið greiddur í lokunar­styrki, sem koma til móts við rekstrar­aðila sem gert hefur verið að stöðva starf­semi sína. Tæpir sex milljarðar króna hafa verið endur­greiddir auka­lega af virðis­auka­skatti (VSK) vegna margs konar fram­kvæmda en endur­greiðslurnar gagnast einkum ein­stak­lingum, sveitar­fé­lögum og fé­lögum á borð við al­manna­heilla­fé­lög og í­þrótta­fé­lög.

Yfir­gnæfandi meiri­hluti fyrir­tækja sem nýttu sér úr­ræði stjórn­valda vegna far­aldursins árið 2020 voru með tíu launa­menn eða færri. Þannig voru þau um 82 prósent þeirra sem nýttu úr­ræðin, alls rúm­lega 2.500 fyrir­tæki. Mark­mið stuðnings við fyrir­tæki er að verja störf eins og kostur er auk þess að skapa öfluga við­spyrnu þegar far­aldrinum sleppir.