Samkeppniseftirlitið hefur heimilað kaup Motormax á eignum og rekstrarfjármunum þrotabús Bílanausts sem varð gjaldþrota í janúar.

Rannsókn eftirlitsins leiddi í ljós að kaupin hindruðu ekki virka samkeppni og leiddu ekki til markaðsráðandi stöðu.

Við rannsókn málsins kom fram að ýmsir umboðssamningar við erlenda framleiðendur sem Bílanaust var umboðsaðili fyrir hefðu ekki fylgt með í kaupunum á þrotabúinu. Þá hafi Mótormax ekki náð samningum við öll umboð sem áður voru í viðskiptasambandi við Bílanaust. Einn framleiðandi hafi til að mynda gert umboðssaming við keppinautinn AB varahluti í kjölfar falls Bílanausts.

Fréttablaðið greindi frá því að skuldir Bílanausts við Arion banka hefðu numið samtals 490 milljónum króna í árslok 2017 en bæði fastafjármunir og rekstrarfjármunir varahlutasölunnar voru veðsettir til tryggingar lánum við bankann.