Eignarhaldsfélagið Mótás, sem varð fyrir skemmstu einn af stærstu hluthöfum Stoða, og Hvalur, sem er stýrt af Kristjáni Loftssyni, tóku drjúgan skerf af þeim sjö prósenta hlut sem bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital seldi í Arion banka í síðustu viku með útboðsfyrirkomulagi, en félögin keyptu þá samanlagt fyrir nærri tvo milljarða króna.

Mótás, sem er í eigu Bergþórs Jónssonar og Fritz Hendriks Berndsen, kom fyrst inn í hluthafahóp bankans í síðasta mánuði, en félagið keypti um 8,3 milljónir hluta að nafnverði í útboði Taconic – bréfin voru seld á genginu 95 krónur á hlut – fyrir tæplega 800 milljónir króna, samkvæmt uppfærðum lista yfir alla hluthafa bankans í gær, sem Markaðurinn hefur séð. Félagið er núna skráð fyrir 10,35 milljónum hluta, eða um 0,6 prósenta eignarhlut, og er í hópi þrjátíu stærstu hluthafa. Hvalur, sem er á meðal stöndugustu fjárfestingafélaga landsins, var fyrir sölu Taconic með 1,5 prósenta hlut, en félagið hefur núna bætt við sig bréfum fyrir um milljarð króna og á 2,13 prósenta hlut í Arion.

Á meðal fjársterkra einstaklinga sem koma nýir inn í hluthafahóp bankans við söluna hjá Taconic er Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood, í gegnum fjárfestingafélagið Sjávarsýn með hlut sem nemur um 200 milljónum að markaðsvirði. Þá keypti fjárfestingafélagið Stálskip fyrir um 300 milljónir og er nú skráð fyrir 0,18 prósenta hlut.

Taconic, sem hefur verið stærsti hluthafi bankans um talsvert skeið, seldi 120 milljónir hluta að nafnverði eftir lokun markaða á þriðjudag í liðinni viku. Eftir þá sölu minnkaði hlutur sjóðsins úr 23,2 prósentum í 16,3 prósent. Fossar markaðir voru ráðgjafar Taconic en samlagshlutafélagið Fossar Finance, sem er stýrt af verðbréfafyrirtækinu, heldur í dag utan um tæplega 0,3 prósenta hlut í Arion banka.

Lífeyrissjóðir, einkum LSR, Almenni, Festa og Brú, keyptu samanlagt um þriðjung af þeim bréfum sem Taconic seldi í Arion. Aðrir lífeyrissjóðir, eins og meðal annars Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Gildi, Stapi og Frjálsi, bættu ekkert við sig og þá keypti Birta aðeins fyrir um 300 milljónir að markaðsvirði.

Eignarhlutur bankanna – Íslandsbanka, Kviku og Landsbankans – jókst um 23 milljónir hluta að nafnverði, eða sem jafngildir 2,2 milljörðum, og eru þeir núna með samtals 5,6 prósenta hlut. Þau bréf skiptast að langstærstum hluta á veltubók og framvirka samninga sem bankarnir hafa gert við viðskiptavini sína.