Bandaríski fjárfestingabankinn Morgan Stanley hefur komist að samkomulagi um yfirtöku á eignastýringarfélaginu Eaton Vance, sem hefur verið umsvifamesti erlendi fjárfestirinn á íslenskum hlutabréfamarkaði síðustu ár. Í tilkynningu um kaupin kemur fram að kaupverðið nemi 7 milljörðum dala, jafnvirði 972 milljarða króna.

Fjárfestingarsjóðir á vegum Eaton Vance hófu fyrst að kaupa í íslenskum hlutabréfum síðla árs 2015. Sjóðirnir hófu að minnka með markvissum hætti við sig í íslenskum félögum síðla árs 2018 og seldu svo í fyrra síðustu bréf sín í Festi, Kviku, TM og VÍS. Þá eru þeir ekki lengur á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa Sjóvár.

Á meðal eftirstandandi eigna Eaton Vance á Íslandi er 2,6 prósenta hlutur í Arion banka, auk 6,16 prósenta hluts í Eimskip og 1,69 prósent hluts í Símanum.

Fyrr á þessu ári greindi Markaðurinn ýtarlega frá því hvernig hlutabréfaeign erlendra sjóða á Íslandi hefði þróast. Hlutabréfafjárfestingar þeirra höfðu þá að meginstefnu til skilað lítilli sem engri ávöxtun eða tapi og kom þar til bæði óhagstæð verðþróun hlutabréfa og gengisþróun krónunnar.