Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í gær að stýrivextir yrðu hækkaðir um 1 prósentustig og standa þeir því nú í 4,75 prósentum.

Í tilkynningu frá nefndinni kemur fram að nefndin telji líklegt að herða þurfi taumhald peningastefnunnar enn frekar til að tryggja að verðbólga hjaðni í sett markmið innan ásættanlegs tíma.

Í samtali við Markaðinn segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri að mögulega hefði Seðlabankinn átt að byrja að hækka vexti fyrr.

„Við vorum náttúrulega fyrst til þess að byrja að hækka vexti af seðlabönkum vestrænna ríkja. Ef við hefðum séð fyrir stríðið í Úkraínu og fleira þá hefðum við mögulega hækkað hraðar,“ segir Ásgeir og bætir við að peningastefnunefndin hafi talið mikilvægt að taka stór skref nú strax til að ná stjórn á atburðarásinni. Verðbólgan sé komin í 7,6 prósent og gert sé ráð fyrir að hún muni hækka enn frekar á komandi misserum. Þá hafi fasteignaverð hækkað töluvert að undanförnu.

Aðspurður hvort hann telji að aðgerðir Seðlabankans muni hafa tilætluð áhrif segir Ásgeir að hann telji svo vera.

„Ég tel að þessar vaxtahækkanir og líka ákvörðun fjármálastöðugleikanefndar í síðustu viku varðandi lánþegaskilyrðin muni hægja á fasteignamarkaðinum að endingu. Hins vegar þá hefur framboðið af fasteignum minnkað mjög mikið á þessu ári og minnkað meira en við gerðum ráð fyrir. Þannig að ég tel að þessar aðgerðir muni hafa áhrif. Þær muni kæla fasteignamarkaðinn og ná að stemma stigu við verðbólgunni. Þó svo að halda verði því til haga að áhrifin af þessum aðgerðum á fasteignamarkaði komi ekki fram fyrr en eftir tvo til þrjá mánuði.“

Ásgeir segir auk þess að það skipti sköpum að auka framboðið á fasteignamarkaði.

„Við erum með nóg pláss til þess að byggja, þannig að það er mikilvægt að ráðast í það. Ég veit ekki hvort fasteignaverð lækki að nafnvirði komi meira framboð inn á markaðinn, en það mun mögulega lækka að raunvirði. Ef það kemst sæmileg ró á fasteignamarkaðinn nú í haust þá mun það leggja grunn að verðbólguhjöðnun á næsta ári.“

Seðlabankinn hóf vaxtalækkunarferli í maí 2019 í kjölfar efnahagsáfalla í kjölfar samdráttar í ferðaþjónustu eftir fall WOW Air og minni útflutnings sjávarafurða vegna loðnubrests. Í kjölfar Covid-faraldursins voru vextir bankans lækkaðir um 2 prósent og náðu sögulegu lágmarki í 0,75 prósentum.

Ásgeir segir að þær aðgerðir sem Seðlabankinn réðist í á þeim tímapunkti hafi verið nauðsynlegar og hafi heppnast virkilega vel.

„Við vorum að bregðast við fordæmalausu efnahagsáfalli. Við gerðum það til að þess að standa vörð um efnahagslífið og lífskjör í landinu. Okkur heppnaðist að vernda kaupmátt og verkalýðsfélögin ættu að vera ánægð með þessar aðgerðir og þær sem við erum að beita nú.“

„Við erum að tryggja að aðilar vinnumarkaðarins geti gert kjarasamninga án þess að þurfa að óttast viðvarandi verðbólgu. Hinn kosturinn er að fasteignaverð hækki meira og við sjáum verðbólguna naga niður lífskjör í landinu.“

Ásgeir bætir við að Seðlabankinn sé að vinna með verkalýðshreyfingunni.

„Seðlabankinn tók stöðu með vinnandi fólki á Covid-tímanum, til þess að mæta efnahagsáfallinu og tryggja kaupmátt launa. Nú gerum við það sama með því að berjast á móti verðbólgu og þessum þenslutímum. Við erum að tryggja að aðilar vinnumarkaðarins geti gert kjarasamninga án þess að þurfa að óttast viðvarandi verðbólgu. Hinn kosturinn er að fasteignaverð hækki meira og við sjáum verðbólguna naga niður lífskjör í landinu.“

Aðspurður hvort hann hafi áhyggjur af því að við séum að sigla inn í erfiða kjarasamningslotu í haust segir Ásgeir bæði já og nei.„Ég trúi því að íslensk verkalýðsfélög séu skynsöm og séu að lesa stöðuna ekkert ósvipað og við erum að gera í Seðlabankanum. Það stendur á okkur hér í Seðlabankanum að sýna svart á hvítu að okkur sé alvara að ná verðbólgunni niður þannig að hún trufli ekki næstu kjarasamninga.“

Ásgeir segir það vera fagnaðarefni að erlendir seðlabankar séu farnir að hækka vexti og taka stöðuna alvarlega.

„Seðlabanki Bandaríkjanna ákvað nýverið að hækka vexti um 75 punkta og við fögnum því þar sem það gerir það að verkum að við erum að vinna í samhengi við aðrar þjóðir. Þetta þýðir að við getum hækkað vexti og beitt vaxtatækinu án þess að hafa áhyggjur af því að gengi krónunnar fari úr jafnvægi.“

Ásgeir segir jafnframt að staðan sé þannig að Ísland sé ekki einhver verðbólgueyja eins og hún var. Verðbólgan hérlendis er nú í samhengi við það sem þekkist erlendis.

„Það er alls staðar verið að tala um þessi sömu mál. Það er að segja hækkun á fasteignaverði, hækkun á hrávörum og svo framvegis. Við megum ekki gleyma því að staðan á Íslandi er mjög góð að mörgu leyti. Við þurfum bara að gæta þess að fara ekki fram úr okkur og vinna saman en ekki í sundur.“

Mikilvægt að ná hallanum á ríkissjóði niður

Ásgeir segir mikilvægt að stjórnvöld beiti sér til að ná hallanum á ríkissjóði niður.

„Það þarf að ná hallanum niður hvernig sem þau fara að því. Það gerist að einhverju leyti sjálfkrafa því að eftir því sem hagkerfið tekur við sér hafa tekjurnar verið að vaxa. Það gerir það að verkum að hallinn er að verða skárri. Mögulega er nóg að halda aftur af útgjöldum en ekki minnka þau en það er mikilvægt að ríkisstjórnin taki mið af þessu efnahagsástandi.“