Century Aluminum, móðurfélag Norðuráls sem rekur álver við Grundartanga í Hvalfirði, er nú að ljúka við 60 milljón dollara fjárfestingu í einu álvera sinna í Bandaríkjunum. Í íslenskum krónum hljóðar það upp á ríflega 7 milljarða. Um er að ræða endurræsingu á kerskálum álvers fyrirtækisins í Mount Holly í Suður-Karólínu. Fréttastofan ABC greinir frá.

Deilur höfðu staðið um raforkusamning álversins á staðnum og hafði nánast öll starfsemi þar lagst af.

Forstjóri Norðuráls, Gunnar Guðlaugsson, sagði í samtali við Markaðinn í september síðastliðnum fyrirtækið væri reiðubúið að ráðast í 14 milljarða fjárfestingu á Grundartanga, fengist nýr raforkusamningur hér á Íslandi. Um væri að ræða álboltaverksmiðju, sem myndi að sama skapi auka verðmæti framleiðslunnar. Álver ISAL við Straumsvík ræður nú þegar yfir álboltaframleiðslu.

Gengið hækkað um 300 prósent

Gengi bréfa Century Aluminum, sem eru skráð á NASDAQ, hefur verið á mikilli siglingu á undanförnum misserum samfara hækkandi álverði. Álverð hefur hækkað um meira en 70 prósent frá því að það fór nærri 1400 dollurum á tonnið í apríl 2020, þegar heimsfaraldurinn hafði náð fullum tökum á heimsbyggðinni.

Á sama tíma var gengi bréfa Century í kringum þrjá dollara. Gengi bréfa álframleiðandans hefur þó meira fjórfaldast síðan þá og stendur í tæplega 13 dollurum á hlut. Hæst fór gengi bréfa Century á þessu ári í ríflega 18,5 dollara á hlut í mars á þessu ári.