Móðurfélag Airport Associates, sem þjónustar farþegaflug á Keflavíkurflugvelli, hefur fest kaup á flugþjónustufélaginu Suðurflugi. Samkeppniseftirlitið samþykkti nýverið samruna félaganna tveggja, eftir því sem fram kemur á vef eftirlitsins.

Suðurflug starfar jafnframt á Keflavíkurflugvelli en sinnir öðru flugi en farþegaflugi, svo sem einkaflugi.

Undir meðferð málsins aflaði Samkeppniseftirlitið ýmissa gagna frá félögunum tveimur og hagsmunaaðilum, meðal annars til þess að meta markaðshlutdeild á mörkuðum málsins.

Af gögnum málsins virtum er það niðurstaða eftirlitsstofnunarinnar að samruni REA, móðurfélags Airport Associates, og Suðurflugs leiði ekki til þess að markaðsráðandi staða verði til eða styrkist eða að samkeppni verði raskað að öðru leyti með umtalsverðum hætti.

Af þeim sökum er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að ekki séu forsendur til þess að aðhafast vegna samrunans.

Elías Skúli Skúlason og Guðbjörg Astrid Skúladóttir fara með 47,5 prósenta hlut hvor í móðurfélagi Airport Associates og þá heldur Sigþór Kristinn Skúlason, framkvæmdastjóri flugþjónustufélagsins, á fimm prósenta hlut í félaginu. Airport Associates þjónustaði meðal annars WOW air á Keflavíkurflugvelli á sínum tíma.

Eins og greint hefur verið frá í Markaðinum tók áðurnefndur Elías Skúli í byrjun ársins sæti í stjórn hins nýstofnaða lággjaldaflugfélags Play. Hann sagðist þá í samtali við Markaðinn hafa sest í stjórnina fyrir hönd hóps fjárfesta sem koma að flugfélaginu en vildi aðspurður ekki tjá sig frekar um málið.