Súkkulaðiframleiðandinn M&M tilkynnti í gær að fyrirtækið væri hætt að framleiða sérstakar kvenkynsmiðaðar umbúðir vegna gríðarlegar óánægju í bandarísku samfélagi með nýjungina.

Þetta kom fram í færslu frá M&M á samskiptamiðlinum Twitter sem sjá má hér fyrir neðan.

Í færslunni kemur fram að fyrirtækið hafi ekki átt von á því að fólk myndi taka eftir breytingunum og ekki átt von á því að internetið færi á hliðina.

Fyrirtækið geri sér nú grein fyrir því að litlir hlutir á fígúrum þeirra geti valdið usla og það sé ekki þeirra hlutverk að skapa illdeilur.

Pakkningarnar entust því aðeins í tæpar þrjár vikur. Fyrr í mánuðinum tilkynnti M&M að von væri á nýjum pakkningum þar þar sem allar fígúrurnar á pakkningunum voru kvenkyns.

Ákvörðunin vakti mikla reiði í Bandaríkjunum og sagði sjónvarpskona hjá Fox News að þetta gæti aðstoðað Kína í að ná frekari ítökum á heimsvísu.