Harðorður dómur féll um brot Mjólkursamsölunnar (MS) í Hæstarétti í dag í máli MS gegn Samkeppniseftirlitinu og íslenska ríkinu. Sekt MS vegna brota á samkeppnislögum upp á 480 milljónir króna var staðfest. Er MS gert að greiða 440 milljónir en áður var 40 milljóna sekt staðfest fyrir dómstólum.

Hæstarétti sýknaði Samkeppniseftirlitið af kröfum MS. Þar með staðfesti Hæstiréttur fyrri úrskurði um brot MS á tveimur greinum samkeppnislaga og sektirnar sem lagðar hafa verið á fyrirtækið á undanförnum árum.

Leyndu samkomulagi við Kaupfélag Skagfirðinga

Sök MS felst aðallega í því að hafa mismunað viðskiptaaðilum sínum með ólíkri verðlagningu og brotið þar með alvarlegum hætti gegn samkeppnislögum, 11.grein og 19.grein laganna, sem fjalla annars vegar um misnotkun á markaðsráðandi stöðu og hins vegar rangri upplýsingagjöf.

„Sú mikla mismunun sem var á verðlagningu MS til ótengdra aðila og verði til eigin framleiðslu fól í sér alvarlegan og langvarandi verðþrýsting sem hafi einnig verið til þess fallinn að verja markaðsráðandi stöðu félagsins,“ segir m.a. í dómnum. Hvað varðaði fjárhæð stjórnvaldssektarinnar vísaði Hæstiréttur til þess að brot MS hafi verið alvarlegt auk þess sem það hafi staðið lengi. Fyrirtækið hefði vísvitandi leynt upplýsingum um samkomulagið við KS.

Forsagan er sú að Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu í júlí 2016 að MS hefði verið í markaðsráðandi stöðu og að félagið hefði misnotað þá stöðu og brotið með því gegn samkeppnislögum. MS var einnig talið hafa brotið gegn lögunum með því að hafa gefið rangar upplýsingar og ekki lagt fram framlegðar- og verkaskiptasamkomulag við Kaupfélag Skagfirðinga (KS) við rannsókn Samkeppniseftirlitsins.

40 milljónir og 400 milljónir fyrir brotin

Var MS gert að greiða 480 milljónir króna í stjórnvaldssekt en á einum tímapunkti voru málin um brot á tveimur aðskildum greinum samkeppnislaga, sameinuð. Annars vegar sektin upp á 40 milljónir fyrir brot á 11.grein og svo 440 milljónir fyrir brot á 19.grein, sem fjallar um misnotkun á markaðsráðandi stöðu. MS hefur nú þegar greitt sektirnar að sögn Gizurs Bergsteinssonar lögmanns íslenska ríkisins í málinu.

Mynd/Pjetur Sigurðsson

Einnig taldi Hæstiréttur ljóst að markmið samkomulags MS og KS hefði ekki verið einskorðað við skiptingu vegna einstaka tegunda framleiðsluvara heldur væri óháð því og verkaskiptingu afurðastöðva. Var samkomulagið ekki talið geta rúmast innan heimilda búvörulaga.

Mynd/Pjetur Sigurðsson

MS skaut þessu máli til Hæstaréttar 28. maí í fyrra og krafðist ógildingar á 400 milljón króna stjórnvaldssekt vegna brots á 11.grein Samkeppnislaga og að úrskurðurinn um 40 milljóna króna sektina vegna brots 19.grein samkeppnislaga verði ógild og MS greidd sú upphæð til baka með dráttarvöxtum.

Brotið með alvarlegum hætti gegn lögum

Hæstiréttur taldi í dómnum sem féll í dag ekki undirorpið vafa að MS hafi verið í markaðsráðandi stöðu á viðkomandi markaði. Félagið hefði selt hrámjólk til tengdra aðila á mun lægra verði en ótengdum aðilum og sú mismunun hafi veitt hinum tengdu aðilum óeðlilegt forskot í samkeppni á markaði málsins.

MS var talið hafa mismunað viðskiptaaðilum sínum með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og þannig veikt samkeppnisstöðu þeirra og með því brotið með alvarlegum hætti gegn samkeppnislögum.

Fréttablaðið/Eyþór

Dómurinn styrkir stöðu bænda og neytenda

„Dómur Hæsta­réttar hefur mikla þýðingu fyrir starfs­um­hverfi í fram­leiðslu mjólkur­af­urða hér á landi og styrkir stöðu bænda og neyt­enda. Þannig stað­festir dómurinn dómurinn mikil­vægi sam­keppni á mjólkur­markaði og að MS er með öllu ó­heimilt að grípa til að­gerða sem miða að því að smáir keppi­nautar nái ekki fót­festu eða hrökklist út af markaðnum. Reynslan sýndi að sam­keppnis­legt að­hald frá m.a. Mjólku var til hags­bóta fyrir bæði bændur og neyt­endur og dómur Hæsta­réttar dregur skýrt fram að það felur í al­var­legt brot að raska slíkri sam­keppni. Hátt­semi MS má rekja til túlkunar fyrir­tækisins á því svig­rúmi sem mjólkur­af­urða­stöðvum var veitt með breytingum á bú­vöru­lögum árið 2004, þegar þeim var heimilað að sam­einast og hafa með sér sam­starf um­fram al­mennar heimildir sam­keppnis­laga og um­fram það sem gildir um sam­bæri­leg fyrir­tæki í ná­granna­löndum okkar,“ segir Páll Gunnar Páls­son, for­stjóri Sam­keppnis­eftir­litsins, í til­kynningu um dóminn.

Dómur Hæsta­réttar hefur mikla þýðingu fyrir starfs­um­hverfi í fram­leiðslu mjólkur­af­urða hér á landi og styrkir stöðu bænda og neyt­enda