Mjólkursamsalan er nýr aðalstyrktaraðili Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Í tilkynningu frá Landsbjörg kemur fram að félagið hafi átt í góðu samstarfi við Mjólkursamsöluna undanfarin ár. Þau hafa, meðal annars, notið stuðnings í formi vöruúttekta þegar sjálfboðaliðar sinna tímafrekum útköllunum og fjáröflunum.
Félögin hafa nú stigið skrefinu lengra og undirritað samstarfssamning og þar með bætist Mjólkursamsalan í hóp aðalstyrktaraðila Landsbjargar.
„Sá stuðningur sem við finnum fyrir í samfélaginu er okkur ómetanlegur. Við gætum ekki leyst verkefni okkar án stuðnings sem við fáum frá almenningi og fyrirtækjunum í landinu. Þess vegna er framtak Mjólkursamsölunnar til fyrirmyndar og okkur hlakkar til að eiga áfram gott samstarf við MS í framtíðinni“ sagði Kristján Þór Harðarson framkvæmdastjóri félagsins.
Hafa stutt við viðbragðsaðila á Reykjanesi
Í tilkynningu kemur fram að mikið hafi mætt á sjálfboðaliðum frá því að jarðskjálftarnir hófust af krafti á Reykjanesi og svo frá því að eldgosið hófst fyrir mánuði í Geldingadölum.
„Undanfarnar fjórar vikur hafa um 1.000 sjálfboðaliðar frá björgunarsveitum, af nánast öllu landinu, lagt sitt af mörkum til að tryggja öryggi ferðafólks við gosstöðvarnar. Margir hópar sjálfboðaliða hafa staðið vaktina og oftar en ekki hafa vaktir verið mannaðar allan sólarhringinn. Við þessar aðstæður hefur það sýnt sig enn og aftur að gott samstarf Slysavarnafélagsins Landsbjargar við fyrirtæki eins og Mjólkursamsöluna er nauðsynlegt til að tryggja að félagið geti sinnt sínu hlutverki,“ segir í tilkynningunni.
Þar kemur fram að félagar Slysavarnadeildinni í Grindavík hafi frá upphafi goss séð til þess að allir björgunarmenn í verkefnum við gosstöðvarnar fái mat milli vakta og þar hafi stuðningur Mjólkursamsölunnar komið sér vel, ásamt stuðnings frá fjölda annarra fyrirtækja. En umfang samstarfsins við Mjólkursamsöluna varð til þess að ákveðið var að festa enn frekar í sessi samstarfið og þróa það áfram.
„Mjólkursamsalan leggur mikla áherslu á stuðning við fjölda samfélagsverkefna og er fyrirtækið stoltur styrktaraðili Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Við hvetjum bæði starfsfólk okkar og aðra landsmenn til að styðja við starf Landsbjargar með því að gerast Bakverðir björgunarsveitanna enda starf þeirra bæði einstakt og nauðsynlegt“ segir Guðný Steinsdóttir, markaðsstjóri MS.