Í lok september námu skuldir systur-lyfjafyrirtækjanna Alvotech og Alvogen við Oaktree Specialty Lending Corporation, systurfélag Oaktree Acquisition Corp. II sem er að sameinast Alvotech, 120 milljónum dala, eða ríflega 15 milljörðum króna, á vaxtakjörum sem endurspegla að um áhættulánveitingu sé að ræða.

Í gær var tilkynnt um samruna Alvotech við Oaktree Acquisition Corp. II, sem er sérhæft yfirtökufélag (e. SPAC) og fyrirhugaða skráningu sameinaðs félags á NASDAQ-markaðinn í Bandaríkjunum. Í tilkynningu frá Alvotech kom jafnframt fram að viðskiptin myndu skila fyrirtækinu um 450 milljónum Bandaríkjadala, sem skiptist þannig að 250 milljónir komi úr sjóðum Oaktree Acquisition Corp. II, 150 milljónir með beinni hlutafjáraukningu frá alþjóðlegum fjárfestum og 50 milljónir koma frá núverandi hluthöfum. Heildarvirði sameinaðs fyrirtækisins er sagt vera 2,25 milljarðar dala.

25. júní 2021 tilkynnti Alvotech að eigendur 300 milljóna dala skuldabréfaflokks, sem gefin voru út í desember 2018, hefðu fallist á að breyta um fjórðungi skuldabréfanna í hlutafé. Með áföllnum vöxtum var fjárhæðin sem breytt var í hlutafé 106 milljónir dala, sem endurspeglaði 2,7 milljarða dala verðmæti fyrirtækisins, samkvæmt fréttatilkynningu.

Þessi mikla lækkun á verðmati fyrirtækisins á aðeins hálfu ári skýrist meðal annars af því að fjárfestar nú koma með reiðufé inn í fyrirtækið, en í júní var einungis um umbreytingu skulda í hlutafé að ræða.

Hrifust af Alvotech og stjórnendum þess

Róbert Wessman, forstjóri Alvotech, segir Oaktree hafa gerst lánveitanda Alvotech með kaupum á hluta af 300 milljóna dala skuldabréfaflokki fyrirtækisins 2018. Nýtt sameinað félag tekur við því láni og vextir þess muni lækka verulega eftir skráningu félagsins á NASDAQ. Róbert segir forsvarsmenn Oaktree hafa hrifist af Alvotech: „Þeir voru mjög ánægðir með framgang fyrirtækisins og stjórnendur og því enduðum við á að fara í SPAC-samruna með Oaktree, eftir að hafa staðið frammi fyrir tveimur frábærum valkostum þegar kom að því að velja SPAC.“

Líkjast verðtryggðum lánum

Oaktree Acquisition Corp. II er dótturfélag Oaktree Capital Group, LLC og stofnað á Cayman-eyjum. Annað dótturfélag Oaktree Capital Group, LLC er Oaktree Specialty Lending.

Eins og önnur fjármálafyrirtæki skilar Oaktree Specialty Lending Corporation bandaríska fjármálaeftirlitinu (SEC) reglulega ítarlegum skýrslum um starfsemi sína. Skýrslur þessar, sem nefndar eru 10-K, eru mun nákvæmari og ítarlegri en árs- og árshlutareikningar, en engu að síður opinber gögn.

Í nýjustu 10-K skýrslu Oaktree Specialty Lending Corporation kemur fram að 30. september síðastliðinn átti félagið fjögur svonefnd PIK-skuldabréf útgefin af Alvotech. Öll bera bréfin 15 prósenta fasta ársvexti. Verðmæti þeirra er um 80 milljónir dala og er um helmingur fjárhæðarinnar á gjalddaga í desember 2023 og helmingurinn í júní 2025. Þessi skuldabréf munu vera hluti 300 milljóna skuldabréfaflokksins frá 2018.

Nánast eingöngu fyrirtæki sem teljast í mjög áhættusömum rekstri, eins og til dæmis sprotafyrirtæki, gefa út PIK-skuldabréf, enda eru vextir þeirra jafnan mun hærri en traustari fyrirtækjum stendur til boða. PIK-lán líkjast um margt verðtryggðum íslenskum lánum, þar sem yfirleitt er heimilt að bæta vöxtum við höfuðstól þeirra fremur en að greiða þá jafnóðum.

Einnig kemur fram í 10-K skýrslunni að Oaktree Specialty Lending Corporation á fjögur veðskuldabréf á fyrsta veðrétti sem gefin eru út af Alvogen, systurfélagi Alvotech. Verðmæti þeirra er um 40 milljónir dala og vextir eru breytilegir með LIBOR-vöxtum og 5,25 prósenta álagi. Samkvæmt upplýsingum frá Alvotech eru þessi skuldabréf Alvotech og samrunanum óviðkomandi.

Samanlögð fjárhæð þessara skuldabréfa er 120 milljónir dala, en fjárhæðin sem nýir alþjóðlegir fjárfestar ætla að leggja nýju sameinuðu félagi Alvotech og Oaktree Acquisition Corp. II til, er 150 milljónir dala.