Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova og gestur í þætti Jóns G. í kvöld, segir að hún sé oft spurð að því hvernig handbækur fyrirtækisins séu. „Ég svara því þá til að það sé eitthvað sem við eigum að forðast því við viljum hafa hlutina einfalda en vera á sama tíma fagleg og öguð í því sem við gerum. Þú færð ekki afhentan einhvern doðrant þegar þú hefur störf hjá Nova heldur eru skilaboðin þessi: Komdu fram við aðra eins og þú vilt að þeir komi fram við þig – og láttu verkin tala; vertu góð fyrirmynd. Ef við tölum um þjónustustefnuna hjá okkur þá er hún mjög einföld: Það er bannað að segja nei,“ segir Margrét.

Þátturinn er á dagskrá Hringbrautar kl. 21 og 23 í kvöld og aðgengilegur á stöðinni í tímaflakki fram að kvöldmat á miðvikudagskvöld.

Nova verður hringt inn í Kauphöllina með viðhöfn í höfuðstöðvum Nova eftir helgi, á þriðjudag, eftir afar árangursríkt hlutafjárútboð sem lauk í síðustu viku þar sem selt var 44,5% hlutafjár fyrir 8,7 milljarða króna sem þýðir að markaðsvirði Nova er um 19,5 milljarðar króna.

Nova hefur verið mjög sigursælt í Íslensku ánægjuvoginni undanfarin þrettán ár á markaði fjarskiptafyrirtækja; með ánægðustu viðskiptavinina. En það er ekki aðeins ánægðir viðskiptavinirnir sem Nova getur státað af heldur einnig ánægðir starfsmenn því Nova toppar einnig í VR könnunum sem mælir ánægju starfsmanna.

Tekjur Nova voru 12,1 milljarður króna á síðasta ári og hagnaður 1,5 milljarðar króna. Framlegð frá rekstri (EBITDA) var 3,2 milljarðar og hefur aukist jafnt og þétt um 8% frá árinu 2015.

Það vekur athygli að Nova er með um 60% hlut í gagnamagni á markaði farsíma – en þar koma jú símar, úr og spjaldtölvur við sögu.

„Við viljum vera lítil að innan en stór að utan,“ segir Margrét m.a. um stefnu fyrirtækisins.

Nova hóf starfsemi 2007 og var kynnt í upphafi undir heitinu Stærsti skemmtistaður í heimi – og sú kynning er enn höfð að leiðarljósi. Fyrirtækið er með 144 þúsund farsímanotendur.

Þátturinn Stjórnandinn með Jóni G. er á dagskrá Hringbrautar öll sunnudagskvöld og endursýndur fram að kvöldmat á mánudögum.