Sjóðir á vegum Miton Group seldu fyrir helgi um 2,1 prósents hlut í TM, eftir því sem fram kemur í flöggunartilkynningu sem breska eignastýringarfyrirtækið sendi Kauphöllinni í dag. Söluverðið nam um 530 milljónum króna miðað við núverandi gengi hlutabréfa í tryggingafélaginu.

Sjóðir í stýringu Miton Group fóru fyrir söluna með samanlagt 6,39 prósent eignarhlut í TM en halda nú á 4,27 prósenta hlut að virði tæplega 1,1 milljarðs króna.

Sjóðir Miton Group eru þar með samanlagt áttundi stærsti hluthafi tryggingafélagsins en þeir eru enn stærsti erlendi fjárfestirinn í hluthafahópnum.

Eins og kunnugt er minnkaði breski vogunarsjóðurinn Lansdowne Partners, sem var áður stærsti erlendi hluthafiinn, nýverið við sig í tryggingafélaginu og á nú um tveggja prósenta hlut. Til samanburðar átti sjóðurinn hátt í sjö prósenta hlut í TM í desember í fyrra.

Stoðir eru sem fyrr stærsti hluthafi TM með tæplega tíu prósenta hlut en þar á eftir koma Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Gildi lífeyrissjóður með um 9,3 prósent.

Hlutabréf í TM hafa lækkað um 7,8 prósent í verði það sem af er ári en sé litið til síðustu tólf mánaða nemur gengishækkun þeirra hátt í tuttugu prósentum.