Sjóðir í stýringu breska eignastýringarfyrirtækisins Miton Group seldu fyrr í dag allan 4,3 prósenta hlut sinn í TM fyrir hátt í 1,1 milljarð króna. Sjóðirnir hafa þannig selt samanlagt um 6,4 prósent hlut í tryggingafélaginu, að virði rúmra 1,6 milljarða króna, á fáeinum dögum.

Sjóðir Miton Group seldu nánar tiltekið tæplega 33 milljón hluti í TM skömmu fyrir hádegi í dag á genginu 32,35 krónur á hlut og nam söluverðið því samtals um 1.099 milljónum króna.

Fram kom í flöggunartilkynningu sem breska eignastýringin sendi Kauphöllinni í gær að sjóðir á vegum fyrirtækisins hefðu selt um 2,1 prósents hlut í TM síðasta föstudag. Í kjölfar þeirra viðskipta héldu sjóðirnir á samanlagt um 4,3 prósenta hlut í tryggingafélaginu sem var svo seldur í dag.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um kaupendur bréfanna að svo stöddu.

Sjóðir Miton Group voru fyrir viðskiptin samanlagt áttundi stærsti hluthafi TM og jafnframt stærsti erlendi fjárfestirinn í hluthafahópi félagsins.

Hlutabréf í tryggingafélaginu hafa hækkað um tæplega 1,7 prósent í verði það sem af er degi í 1,2 milljarða króna viðskiptum. Stendur gengi bréfanna nú í 33,25 krónum á hlut en það hefur lækkað um 6,3 prósent það sem af er árinu.