Sjóður í stýringu breska eigna­stýringarfyrirtækisins Miton Group keypti nýverið ríflega hálfs prósents hlut í TM og fer eftir kaupin með 5,1 prósents hlut í tryggingafélaginu.

Sjóðurinn, CF Miton UK Multi Cap Income, festi kaup á 3,68 milljónum hluta í TM en miðað við núverandi gengi hlutabréfa í félaginu má ætla að kaupverðið hafi numið um 95 milljónum króna.

Sjóðurinn á nú hlutabréf í tryggingafélaginu að virði um 905 milljónir króna og er áttundi stærsti hluthafi félagsins.

Fjárfestingasjóðir í stýringu Miton Group hafa látið til sín taka á íslenskum hlutabréfamarkaði undanfarin misseri og eru í hópi stærstu hluthafa í mörgum skráðum félögum, þar á meðal skráðu tryggingafélögunum þremur. Þannig fer áðurnefndur sjóður með 4,7 prósenta hlut í Sjóvá og 6,2 prósenta hlut í VÍS.

Sjóður í stýringu breska vogunarsjóðsins Lansdowne Partners er fimmti stærsti hluthafi TM með liðlega 7,4 prósenta hlut og þá eru tveir sjóðir á vegum bandaríska eignastýringarfyrirtækisins Eaton Vance Management á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa tryggingafélagsins með samanlagt þriggja prósenta hlut.

Lífeyrissjóður verslunarmanna er sem kunnugt er stærsti hluthafi tryggingafélagsins með tæplega tíu prósenta hlut. Gildi – lífeyrissjóður á ríflega 9,1 prósents hlut í félaginu og Birta lífeyrissjóður um 7,8 prósenta hlut.

Hlutabréf í TM lækkuðu um 21,3 prósent í verði á síðasta ári en það sem af er þessu ári hefur hlutabréfaverð tryggingafélagsins staðið nokkurn veginn í stað.