Útgjaldaloforð stjórnmálaflokka fyrir alþingiskosningar á laugardag eru misraunhæf. „Það veldur vonbrigðum hversu litlar tilraunir eru oft gerðar til kostnaðarmats á gríðarstórum tillögum og að sama skapi lítið um skynsamlegar útfærslur til tekjuöflunar enda má segja að við höfum þurrausið brunninn þegar kemur að skattheimtu hér á landi,“ segir Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.

Anna Hrefna segir að í sumum tilvikum geri flokkarnir ráð fyrir bættum efnahagsforsendum vegna breytinga sem flokkarnir hyggjast ráðast í án þess að það sé rökstutt nánar.

Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.

„Í ljósi nýlegra vendinga í efnahagsmálum þarf vart að benda á að ekki er hægt að byggja loforð um varanlega aukningu útgjalda á síauknum hagvexti. Að auki eru margar tillaganna einmitt til þess fallnar að draga úr fjárfestingum og atvinnustarfsemi, svo sem aukin skattheimta á tekjur og eignir einstaklinga og fyrirtækja.

Þegar er áætlað að halli ríkissjóðs muni hlaupa á hundruðum milljarða á árinu. Umræða um aukin útgjöld hjá hinu opinbera þarf að byggja á raunhæfum tillögum sem vert er að eyða púðri í að ræða, svo ekki sé minnst á hvert lokamarkmiðið með auknum útgjöldum á að vera. Aukin útgjöld eru ekki ávísun á bættan árangur og eiga því aldrei að vera sjálfstætt markmið,“ segir hún.

Markaðurinn lagði þrjár spurningar fyrir stjórnmálaflokka sem bjóða fram til Alþingis á laugardaginn og eiga möguleika á þingsæti: Hver eru þrjú helstu útgjaldaloforð ykkar? Hvaða kosta þau? Hvernig á að fjármagna þau?

Byrjum á stjórnarandstöðunni í ljósi þess að ríkisstjórnin er fallin ef marka má Þjóðarpúls Gallup og hún er almennt áhugasamari um ríkisútgjöld og skattahækkanir.

Halldóra Mogensen, formaður þingflokks Pírata.
Fréttablaðið/Ernir

Píratar vilja hækka persónuafslátt um 20 þúsund krónur en hann er nú tæplega 51 þúsund krónur. Jafnframt er stefnt að því að minnka tekjuskerðingar aldraðra og öryrkja og leggja aukið fé í heilbrigðiskerfið.

Píratar telja að hækkun persónuafsláttar muni kosta um 70,9 milljarða, minni tekjuskerðing kosti um 15 milljarða og leggja eigi um fimm milljarða í heilbrigðiskerfið.

Píratar segja að 25 milljarða króna svigrúm sé í fjármálaáætlun. Aukinheldur megi afla 40 milljarða með því að bæta við þrepaskiptum fjármagnstekjuskatti og hækka efri skattþrep, hagræn áhrif skattabreytinga muni skila tíu milljörðum króna en flokkurinn segir að skattgreiðslur rúmlega 90 prósenta launafólks muni lækka gangi tillögurnar eftir. Jafnframt muni auðlindagjöld afla níu milljarða, endurskipulagning ríkisskulda átta milljarða, bætt skatteftirlit fimm milljarða, afnema eigi kirkjujarðasamkomulagið sem afla muni fjögurra milljarða króna og mengunar- og orkunýtingargjöld á stóriðju muni afla tveggja milljarða króna.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Sigtryggur Ari.

Samfylkingin stefnir á að hækka barnabætur í 77 þúsund krónur á mánuði fyrir einstætt foreldri með tvö börn og í 54 þúsund fyrir sambúðarfólk með tvö börn. Það mun að mati flokksins kosta um níu milljarða króna. Auk þess á að bæta kjör eldra fólks og öryrkja með því að hækka grunnlífeyri, frítekjumark atvinnutekna öryrkja og lífeyris- og atvinnutekna eldra fólks. Samfylkingin gerir ráð fyrir að samanlagður kostnaður við fyrstu skref í hækkun á almannatryggingum sé um 13 milljarðar. Þar að auki megi gera ráð fyrir einum til tveimur milljörðum í að ná niður biðlistum eftir brýnum aðgerðum í heilbrigðiskerfinu sem væru þó ekki varanleg útgjöld, samkvæmt svörum frá flokknum.

Samfylkingin stefnir enn fremur á að auka framlög til opinbera heilbrigðiskerfisins en það á eftir að útfæra þær áætlanir. Til að mæta auknum rekstrarútgjöldum mun flokkurinn leggja á stóreignaskatt sem gæti skilað að minnsta kosti tíu milljörðum króna. Jafnframt mun Samfylkingin hækka veiðigjöld á stærstu útgerðarfyrirtækin sem ætti varlega áætlað að skila – auk bætts skatteftirlits – um sex til átta milljörðum króna til viðbótar. Auknum fjárfestingarútgjöldum til grænnar uppbyggingar vegna loftslagsmála og húsnæðisuppbyggingar verður að hluta mætt með lántöku. Samfylkingin mun einnig hverfa frá 100 milljarða áformum um niðurskurð hjá ríkinu.

Gunnar Smári Egils­son, for­maður fram­kvæmdar­stjórnar Sósíal­ista­flokksins.

Sósíalistaflokkurinn nefndi ekki fjárhæðir þegar spurt var um helstu útgjaldaloforð og hvernig þau yrðu fjármögnuð. „Við boðum kerfisbreytingu og því misvísandi að ætla að verðmeta þessar aðgerðir innan óbreytt kerfis. Hagkerfið er kvikt og aðgerðirnar hafa áhrif á það, en tillögur Sósíalistar rúmast vel innan reynslu þjóðanna af skattastefnu eftirstríðsáranna og opinberri uppbyggingu innviða og grunnkerfa,“ segir í svarinu.

Sósíalistaflokkurinn segist boða endurreisn innviða og grunnkerfa samfélagsins. Það verði fjármagnað með lánum og segir flokkurinn að það sé ekki eyðsla heldur fjárfesting í öflugu samfélagi sem standa muni undir lánum. Auk þess boði flokkurinn byggingu 30 þúsund íbúða innan félagslega kerfisins sem fjármagnað verður með lántökum sem leiga og söluverð munu greiða niður.

Sósíalistar vilja lækka skatta á lágar tekjur og smáfyrirtæki. Það á að fjármagna með stóreignaskatti, hækkun á fjármagnstekjuskatti, innleiðingu hátekjuþrepa, þrepaskiptum tekjuskatti fyrirtækja, hátekjuþrepa í erfðafjárskatti og stórefldu skatteftirliti með auðugasta fólkinu.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.

Viðreisn segist leggja áherslu á ábyrga efnahagsstjórn sem feli í sér að útgjöld geti ekki vaxið hraðar en tekjur. Skapist rými til þess mun Viðreisn setja í forgang að niðurgreiða sálfræðiþjónustu, minnka skerðingar í almannatryggingakerfinu og efla menntun og nýsköpun.

Viðreisn telur raunhæft að auka tekjur ríkissjóðs um 125 milljarða á komandi kjörtímabili. Gangi það eftir áætlar Viðreisn að auka ríkisútgjöld um 90 milljarða. Þessir 90 milljarðar myndu skiptast með eftirfarandi hætti eftir málaflokkum: 33 milljarðar í heilbrigðismál, 26 milljarðar í velferðarmál, 13 milljarðar í menntamál, ellefu milljarðar í samgöngumál og sjö milljarðar í nýsköpun.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Fréttablaðið/Anton Brink

Vinstri græn leggja áherslu á umbætur á örorkulífeyriskerfinu, eflingu barnabótakerfisins, lækkun kostnaðar sjúklinga og aukinn stuðning við almenna íbúðakerfið til að lækka húsnæðiskostnað tekjulægri heimila. Líklega þurfi að leggja tólf milljarða í að bæta grunnframfærslu öryrkja og skapa svigrúm fyrir aukna atvinnuþátttöku þeirra sem hafi tök á. Horft er til þess að bæta við allt að fimm milljörðum króna í tengslum við barnabætur á kjörtímabilinu. Vinstri græn gera ráð fyrir fjórum milljörðum króna til viðbótar til lækkunar á greiðsluþátttöku sjúklinga næstu árin. Flokkurinn horfir til að byggja 600 nýjar íbúðir á ári sem mun kosta tvo milljarða.

VG segir að aukin umsvif í hagkerfinu muni skapa svigrúm til að fjármagna útgjöld. Flokkurinn horfir til þess að taka upp þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt til að stuðla að jöfnuði.

Auk þess telja Vinstri græn að hækka eigi veiðigjald sem nú sé 33 prósent hjá stærstu útgerðunum. Auk þess er stefnt á að innleiða frekari græna skatta í því skyni að ná loftlagsmarkmiðum.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Mynd/Fréttablaðið

Sjálfstæðisflokkurinn segir að í aðdraganda heildstæðari endurskoðunar á kerfi ellilífeyris almannatrygginga muni flokkurinn tvöfalda frítekjumark atvinnutekna úr 100 þúsund krónum í 200 þúsund krónur. Þannig geta þeir sem vilja vinna á lífeyrisaldri gert það áfram án þess að búa við skerðingar á greiðslum almannatrygginga í þeim mæli sem nú er. Áætlað er að aðgerðin muni kosta um einn milljarð króna á ári. Sjálfstæðisflokkurinn vill styðja betur við foreldra í námi. Nauðsynlegt sé að endurskoða reglur um fæðingarstyrk námsmanna og hækka hann verulega til að jafna stöðu þeirra miðað við foreldra á vinnumarkaði. Áætlaður beinn kostnaður við aðgerðina nemur um einum milljarði króna á ári. Ekki er talið að ráðast þurfi í sérstakar tekjuöflunaraðgerðir til að fjármagna aðgerðirnar heldur megi forgangsraða ríkisfjármunum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Mynd/Hringbraut

Eina beina útgjaldatillaga Framsóknarflokksins er vaxtarstyrkur vegna íþrótta og tómstunda barna sem eru sex ára og eldri. Markmiðið er að koma til móts við barnafjölskyldur og að ríkið styðji við frístundir barna um 60 þúsund krónur á ári. Talið er að kostnaðurinn verði 3,5 milljarðar króna á ári. Fjármagna á útgjöldin með því að skattleggja hærra hreinan hagnað fyrirtækja umfram 200 milljónir króna á ári.

Ekki bárust svör frá Flokki fólksins og Miðflokknum.