Vöruinnflutningur í apríl dróst saman um 27% í apríl og nam 47,2 milljörðum króna, að því er kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands. Hökt í birgðakeðjum erlendis, minnkandi innflutningur á eldsneyti og aukin neysla innanlands er vegur þungt í samdrætti innflutnings, að sögn sérfræðinga.

Í heild var vöru- og þjónustujöfnuður jákvæður um 1,4 milljarða í apríl, samanborið við halla upp á 4,4 milljarða króna í apríl á síðasta ári. Hrun í ferðamannaiðnaði þýddi að útflutt þjónusta dróst saman um ríflega 58%, en 45% samdráttur í innfluttri þjónustu og minni innflutningur þýddi að niðurstaða utanríkisviðskipta var jákvæð í apríl.

„Fólk er að nota töluverðan hluta af þeim peningum sem annars hefðu farið í utanlandsferðir í innlenda neyslu. Það sást til dæmis á því hversu líflegt var á veitingahúsum landsins þegar þau opnuðu aftur,“ segir Jón Bjarki Bentsson, hagfræðingur hjá Íslandsbanka.

Sé litið til talna um erlenda veltu innlendra greiðslukorta má reikna með því að Íslendingar hafi á síðustu misserum verið að eyða um 15 milljörðum erlendis á mánuði að jafnaði, bætir Jón Bjarki við.

Kortavelta Íslendinga erlendis í apríl og maí dróst saman um ríflega tvo þriðju, samkvæmt gögnum Seðlabanka Íslands .

Útgöngubann í flestum viðskiptaríkjum Íslands þýddi líka að minna af vörum skilaði sér til landsins vegna örðugleika í birgðakeðjum, að sögn Daníels Svavarssonar, hagfræðings hjá Landsbankanum.

Daníel bendir einnig á að hvarf ferðamanna í mánuðinum þýddi að minni þörf var á innflutningi aðfanga fyrir ferðamenn. Á það einkum og sér lagi við innflutning á eldsneyti.

Sé litið til fyrstu fjögurra mánaða ársins dróst afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum hins vegar saman um 75,4% og var tæplega sjö milljarðar króna.