Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vill minnka notkun aðildarlanda sinna á gasi frá Rússlandi um tvo þriðju hluta áður en þetta ár er á enda og gera álfuna óháða gasi og olíu frá Rússlandi fyrir árið 2030. Um þessi áform var tilkynnt í gær.

Í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu hefur verð á olíu og gasi hækkað mjög mikið. Bætast þær hækkanir við fyrri verðhækkanir sem orðið höfðu fyrir innrásina.

Áætlun ESB, sem nefnd er REPowerEU, á að fela í sér ódýrari og áreiðanlegri orku fyrir Evrópu og er ætlað að koma til móts við kröfur í loftslagsmálum. Í aðalatriðum snúast áformin um fjölbreyttari leiðir við kaup á gasi, um að flýta áætlunum um endurnýjanlega orkugjafa og skipta út gasi sem eldsneyti til hitunar og raforkuframleiðslu.

Reyndar hafa lönd Evrópusambandsins á liðnum áratug dregið úr orkukaupum frá Rússum um þriðjung. Verðmæti þeirra viðskipta var 148 milljarðar evra árið 2011 en 99 milljarðar evra á árinu 2021.