Íslenskir fiskverkendur óttast að markaðsaðstæður erlendis kunni að versna nokkuð með haustinu samfara minnkandi kaupmætti almennings ytra. Breytt neyslumynstur, sem meðal annars felst í lokun fiskborða í matvöruverslunum og þar með minnkandi eftirspurn eftir ferskum afurðum, gætu að sama skapi klippt út hluta virðiskeðju útflutningsverðmætis íslenskra sjávarafurða.

Stór hluti útflutnings fersks sjávarfangs frá Íslandi fer til Bretlands. Þar í landi komu stjórnvöld á bótakerfi vegna COVID-19 faraldursins sem líkist hlutabótakerfinu íslenska að nokkru leyti. Fram að síðustu mánaðamótum gátu vinnuveitendur í Bretlandi sent hinu opinbera reikning fyrir allt að 80 prósentum af launareikningi starfsmanna sinna sem ekki máttu mæta til vinnu. Verður þetta bótakerfi skalað niður smátt og smátt með haustinu. Fram kemur í nýlegri umfjöllun BBC að alls hafi 10 milljónir manna þegið bætur sem þessar frá því í vor, en samkvæmt nýjustu tölum frá Bretlandi var fjöldi vinnandi fólks 43,5 milljónir þar í landi. Þannig er nærri því fjórði hver maður á vinnumarkaði í Bretlandi á framfæri hins opinbera sem stendur, en óttast er að hrina atvinnuleysis muni skella á landinu með haustinu.

„Menn hafa áhyggjur af því að kaupmáttur á okkar helstu markaðssvæðum kunni að fara þverrandi með haustinu þegar ríkissjóður þessara landa hættir að borga laun stórs hluta vinnuaflsins,“ segir Pétur Pálsson, framkvæmdastjóri línuútgerðarinnar Vísis, sem hefur verið í fremstu röð við útflutning á ferskum fiski á síðastliðnum árum.

Nánast allur fiskur sem skip Vísis landa er veiddur á línu sem skilar afla af háum gæðum og hentar vel til fersks útflutnings. Pétur nefnir að miklar fjárfestingar í vinnslu fyrirtækisins á síðastliðnum fjórum til fimm árum hjálpi þó til við að milda höggið sem hlaust af snarminnkandi eftirspurn eftir ferskum fiski. „Við getum framleitt allar tegundir af ferskum og frosnum fiski og getum framleitt 90 prósent frysta afurð einn daginn en skipt yfir í 90 prósent ferska þann næsta. Þar af leiðandi er hægt að mæta breyttum áherslum markaðanna frá degi til dags. Aðaláhyggjur okkar í dag snúa hins vegar að kaupmætti erlendis,“ segir Pétur.

Ásamt horfum á minnkandi kaupmætti hafa matvöruverslanir erlendis margar hverjar lokað fiskborðum með fersku sjávarfangi. Greint var frá því í Markaðinum þann 7. júlí síðastliðinn að Sainsbury's í Bretlandi hefði lokað allflestum fiskborðum í sínum verslunum, en félagið hefur um 15 prósenta markaðshlutdeild á breskum dagvörumarkaði. Bent hefur verið á að opin snerting við matvæli geti hugsanlega orsakað COVID-19 smit milli einstaklinga. Þó að ekkert sé sannað í þeim efnum virðast neytendur nú einfaldlega kjósa að kaupa innpökkuð matvæli fremur en að velja sér vænlegt flak úr fiskborðinu.

Útgerðin og fiskvinnslan G.Run á Grundarfirði á það sammerkt með Vísi í Grindavík að hafa tekið nýja fiskvinnslu í notkun nýlega og hefur því fært sig í auknum mæli yfir í framleiðslu á frystum fiski. „Þessi opna snerting við matvæli er vandamál í dag,“ segir Guðmundur S. Guðmundsson, framkvæmdastjóri G.Run. „Þetta er ekki gott fyrir okkur Íslendinga. Við höfum ekkert með að pakka ferskum afurðum í 200-500 gramma neytendapakkningar, það er of dýrt að flytja það út við núverandi aðstæður,“ segir hann og bætir við: „Þessi innpökkunarhluti virðiskeðju ferskra afurða gæti því stækkað og við hér norður í hafi eigum mjög erfitt með að taka þann hluta til okkar.“

Menn hafa áhyggjur af því að kaupmáttur á okkar helstu markaðssvæðum kunni að fara þverrandi með haustinu þegar ríkissjóður þessara landa hættir að borga laun stórs hluta vinnuaflsins.

En þrátt fyrir að horfur séu hugsanlega í dekkri kantinum með tilliti til afurðaverðs í haust hefur verð á þorski í Bretlandi haldist nokkuð stöðugt frá vorinu. Meðalverð á þorski seldum til Bretlands lækkaði um tvö prósent á fyrstu sex mánuðum þessa árs miðað við sama tímabil í fyrra, samkvæmt gögnum frá Sea Data Center sem tekur saman markaðsverð sjávarafurða. Verð á frystum þorskhnökkum hefur jafnframt hækkað um 4 prósent samfara söluaukningu upp á 60 prósent. Sú söluaukning kemur þó ekki af sjálfu sér því sala á ferskum þorskhnökkum hefur dregist saman um 40 prósent á fyrstu sex mánuðum ársins. Stórt högg hefur jafnframt verið hoggið í útflutning á slægðum, ferskum þorski, en þar hefur magn dregist saman um helming á tímabilinu janúar til júní.

Meira framboð á frosnum þorski inn í Bretland hefur komið illa niður á verði á ýsu, en Bretland er mikilvægasti markaður Íslands fyrir þá tegund. Heildarútflutt magn ýsu á fyrstu sex mánuðum ársins til Bretlands minnkaði þannig um 16 prósent. Er það þrátt fyrir að aukning á útflutningi frystra ýsuafurða hafi mælst um 40 prósent.

Bent hefur verið á að veitingastaðir sem selja fyrst og fremst steiktan fisk og franskar kartöflur, sem er meðal vinsælustu rétta Bretlands, hafi sætt lagi þegar þeir sáu stóraukið framboð af frosnum þorski frá Íslandi og minnkað innkaup á ýsu og tekið inn þorsk í staðinn, enda alla jafna talinn afgerandi betri matfiskur.