Verkföll flugmanna og flugumferðarstjóra bitnuðu á afkomu Ryanair á fyrri helmingi rekstrarárs írska lággjaldaflugfélagsins en hagnaður félagsins dróst saman um sjö prósent á tímabilinu frá apríl til september.

Hagnaður Ryanair nam 1,2 milljörðum evra, sem jafngildir um 161 milljarði króna, á tímabilinu. Hækkandi olíukostnaður lék flugfélagið jafnframt grátt en hann var 1,3 milljarðar evra á umræddum sex mánuðum og hækkaði um 22 prósent á milli ára.

Farþegum Ryanair fjölgaði um 6 prósent á tímabilinu og þá var sætanýting félagsins 96 prósent, að því er fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins.

Meðalfargjöld lækkuðu um 3 prósent og námu 46 evrum en viðbótartekjur, sem eru tekjur af farþegum umfram sölu farmiða, jukust um 27 prósent og voru alls 1,3 milljarðar evra.

Eftir áralangar deilur við stéttarfélög samþykktu stjórnendur flugfélagsins loks að viðurkenna slík félög í lok síðasta árs. Starfsmenn Ryanair í að minnsta kosti fimm Evrópuríkjum hafa farið í verkfall á árinu með þeim afleiðingum að hundruð flugferða félagsins hafa fallið niður.

Michael O’Leary, forstjóri Ryanair, gerði hins vegar lítið úr þessum verkfallsaðgerðum á afkomufundi fyrr í dag og benti á að flugfélög á borð við Air France og Lufthansa hefðu orðið harkalegar fyrir barðinu á aðgerðum stéttarfélaga það sem af væri árinu.

Fyrr í mánuðinum sendu stjórnendur Ryanair frá sér afkomuviðvörun þar sem þeir lækkuðu spá sína um afkomu félagsins fyrir árið um 12 prósent. Gera þeir nú ráð fyrir að félagið skili hagnaði á bilinu 1,1 og 1,2 milljarða evra á yfirstandandi rekstrarári. Til samanburðar nam hagnaður félagsins 1,45 milljörðum evra á síðasta rekstrarári.