Innrennsli í miðlunarlón Landsvirkjunar hefur verið nokkuð minna en á síðasta ári. Sökum minni orkusölu en vænst var á þessu ári er þó ekki útlit fyrir takmarkanir á afhendingu raforku á yfirstandandi vetri. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun.

Lítil úrkoma og mikil kuldatíð eru sagðar ástæður lágrar stöðu miðlunarlóna Landsvirkjunar: „Innrennsli í miðlunarlón Landsvirkjunar hefur verið í minna lagi í haust og engir vetrarblotar náð inn á hálendið það sem af er vetri. Öll miðlunarlón voru full fram yfir miðjan október, en frá þeim tíma hefur niðurdráttur verið samfelldur,“ segir í tilkynningunni.

Að sögn Landsvirkjunar hefur innrennsli í miðlunarlón á Þjórsársvæðinu og í Hálslón, sem er miðlunarlón Kárahnjúkavirkjunar, verið með allra minnsta móti. „Á móti kemur að orkusala hefur verið undir væntingum þannig að miðlunarstaðan nú um áramót er vel þolanleg,“ segir Landsvirkjun.