Flökt í gengi krónunnar var minna á síðasta ári en árið á undan, að sögn Seðlabankans, en munur á hæsta og lægsta gildi gengisvísitölunnar var 7,2 prósent á árinu. Þetta kemur fram í nýrri frétt bankans um gjaldeyrismarkað, gengisþróun og gjaldeyrisforða á árinu 2019.

Þar segir auk þess að gengi krónunnar hafi lækkað um 3,1 prósent á síðasta ári. Gagnvart evru lækkaði gengið um 1,9 prósent en um 3,9 prósent gagnvart Bandaríkjadal. Var gengið jafnframt hæst í upphafi árs en lægst í júlí.

Heildarvelta á gjaldeyrismarkaði var svipuð í fyrra og á árinu 2018, eftir því sem fram kemur í fréttinni, en hún nam 188,3 milljörðum króna á síðasta ári. Hlutdeild Seðlabankans í veltunni var 7,6 prósent sem var öllu meira en árið 2018 en talsvert minna en á árinu 2017.

Þá jókst gjaldeyrisforði Seðlabankanum um 86 milljarða króna í krónum talið á síðasta ári og nam í árslok um 822 milljörðum króna. Gjaldeyrisjöfnuður Seðlabankans, þ.e. mismunur eigna og skulda bankans í erlendum gjaldmiðlum, var 646 milljarðar króna í lok ársins 2019 borið saman við 627 milljarða króna í lok árs 2018.