David Koch, sem var einn af ríkustu mönnum heims og áhrifamikill í bandarískum stjórnmálum, er látinn, 79 ára að aldri. Bróðir hans Charles tilkynnti þetta í dag en David hafði glímt við krabba­mein í blöðru­hálskirtli. Financial Times greinir frá.

David Koch var einn fjögurra bræðra sem erfðu fyrirtæki föður þeirra í Wichita fyrir 50 árum síðan en eftir miklar fjölskyldudeilur keyptu David og Charles hina tvo bræðurnar út. Undir stjórn þeirra varð Koch Industries eitt af stærstu einkafyrirtækjum Bandaríkjanna.

Á síðasta ári dró David sig til hlés vegna hrakandi heilsufars. Hann var ellefti ríkasti maður heims samkvæmt Forbes sem mat auðæfi hans á 42 milljarða Bandaríkjadali.

Koch-bræðurnir hafa verið umdeildir í Bandaríkjunum fyrir að fjármagna frambjóðendur og pólitískar herferðir sem samræmast frjálshyggjusjónarmiðum þeirra.