„ Þetta er einn af stærri samningum í okkar geira og afar stór viðurkenning fyrir fyrirtækið okkar. Þetta hefur vakið mikla athygli erlendis og með þessum samningi erum við orðin þátttakendur á stóra sviðinu,“ segir læknirinn Tryggvi Þorgeirsson, framkvæmdastjóri og annar af stofnendum Sidekick Health.

Pfizer er eitt stærsta og öflugasta lyfjafyrirtæki heims en í einfölduðu máli snýst samstarfið við Sidekick Health um að bæta þjónustu við fólk með ýmsa langvinna sjúkdóma með stuðningi í gegnum fjarheilbrigðiskerfi á sviðum sem lyfin hafa ekki áhrif á.

Aðdragandi samningsins er langur. Sidekick Health var stofnað fyrir sex árum og var þá þegar hafist handa við að byggja upp teymi og þróa vörur fyrirtækisins. Niðurstöður fyrstu klínísku rannsóknar fyrirtækisins litu dagsins ljós árið 2017. Þær gáfu góð fyrirheit og í byrjun árs 2018 var fyrirtækið valið úr stórum hópi umsækjenda til tilraunasamstarfs við Pfizer.

Mikil ánægja sjúklinga í rannsóknum

„Sú samvinna hefur gengið afar vel. Sjúklingaprófanir sem við gerðum á fyrri helmingi ársins 2019 komu afar vel út og ánægja sjúklinga var mikil,“ segir Tryggvi. Í kjölfarið vildi Pfizer útvíkka samstarf fyrirtækjanna og nú er ráðgert að lausnin sem Sidekick Health hefur þróað verði innleidd í fimm sjúkdómaflokkum í 5-10 Evrópulöndum á næstu misserum.

„Mikill meirihluti allra sjúkdóma sem við glímum við eru langvinnir sjúkdómar þar sem lífsstíll getur haft afgerandi áhrif á sjúkdómsganginn. Upphafið að vegferð Sidekick Health var þegar ég starfaði sem læknir árið 2009 og var að skrifa út lyf fyrir sjúklinga mína. Ég vissi að lyfin hjálpuðu upp að ákveðnu marki en mér fannst óásættanlegt að hafa ekki tól til að taka á lífsstílstengdum þáttum sem sannarlega höfðu áhrif á baráttuna við sjúkdóminn,“ segir Tryggvi.

Sidekick Health hefur því þróað lausn í gegnum fjarheilbrigðiskerfi sem veitir sjúklingum margskonar stuðning. „Sá ávinningur sem Pfizer sér í samstarfi við okkur er að auka líkurnar á því að meðhöndlun sjúkdóma með lyfjagjöf beri tilætlaðan árangur,“ segir Tryggvi.

Hann er meðvitaður um að ákveðin tortryggni sé ríkjandi í garð lyfjarisanna en hann bendir á að þeirra hagur sé að sjálfsögðu sá að lyfjagjöfin reynist árangursrík og sjúklingar fái bót meina sinna. „Það er gríðarleg samkeppni á þessum markaði. Það kostar að jafnaði 2-3 milljarða bandaríkjadala að koma nýju lyfi á markað og því til mikils að vinna að auka líkurnar á því að meðferðin heppnist vel,“ segir Tryggvi.

Þegar byrjaðir að auglýsa eftir starfsfólki

Lyfjarisar heimsins horfi því í auknum mæli til tæknilausna sem geti hjálpað til við lyfjameðferðina. Þar kemur Sidekick Health til skjalanna en rannsóknir og sjúklingaprófanir hafa sýnt að með því að bæta lausn fyrirtækisins inn í hefðbundna meðferð megi bæta ýmsar útkomur svo sem þyngdar- og blóðsykurstjórn, streitueinkenni, þunglyndis- og kvíðaeinkenni, lífsgæði og dánarlíkur.

Þá hjálpar tæknin einnig til við lyfjaheldni sjúklinga sem er afar mikilvægt enda deyja um 300 þúsund manns árlega í Evrópu og Bandaríkjunum vegna þess að viðkomandi taka ekki lyfin sín með reglubundnum hætti. „Að auki hjálpum við fólki að skilja og takast á við sjúkdóm sinn í daglegu lífi, svo sem með fræðslu og samskiptum við aðra sjúklinga. Loks býður kerfið upp á fjareftirlit og fjarstuðning heilbrigðisstarfsfólks,“ segir Tryggvi.

Virði samningsins er áætlað um 8 milljónir evra á næstu tveimur árum eða um 1,3 milljarðar króna. Starfsmenn Sidekick Health eru 25 talsins í dag en Tryggvi gerir ráð fyrir því starfsmannafjöldinn tvöfaldist á næstu tólf mánuðum í takt við aukin umsvif fyrirtækisins. „Við erum þegar byrjuð að auglýsa eftir starfsfólki og erum núna sérstaklega að leita að öflugum hönnuðum og forriturum.“