Flugfélagið Niceair mun hefja millilandaflug frá Akureyri næsta sumar. „Það er veruleg þörf á millilandaflugi fyrir Norður- og Austurland,“ segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, flugmaður og framkvæmdastjóri flugfélagsins. Áætlað er að flugið hefjist 2. júní.

Að hans sögn komu árið 2019 um 200 þúsund ferðamenn til Akureyrar með skemmtiferðaskipum fyrir Covid-19. „Mér finnst ekki ólíklegt að við náum þeim ferðamannafjölda og gott betur með beinu flugi til Akureyrar innan tíðar,“ segir Þorvaldur Lúðvík.

Fimm til sex flug í viku

Í upphafi verða fimm til sex flug á viku með einni flugvél, Airbus 319, sem tekur 150 farþega í sæti og er tólf ára gömul.

„Gögn benda til að eftirspurnin sé mun meiri en við viljum fara hægt í sakirnar,“ segir hann. Í upphafi verður flogið til Bretlands, Danmerkur og Spánar. „Mikil tækifæri eru í vetrarferðamennsku til að mynda frá Bretlandi,“ segir Þorvaldur Lúðvík. Greint verður nánar frá áfangastöðum innan tíðar.

Þorvaldur Lúðvík segir að rannsóknir sýni að 70 prósent þeirra ferðamanna sem hafi áhuga á að koma aftur til Íslands vilji hefja ferðalagið úti á landi. Almennt dvelji ferðamenn í þrjá til fjóra daga á Íslandi, gisti í Reykjavík, skoði Gullfoss og Geysi og baði sig í Bláa Lóninu. „Þegar ferðamenn koma aftur vilja þeir fara beint út á land en ekki keyra um langan veg til að komast á áfangastað,“ segir hann.

Það kom Þorvaldi Lúðvík sömuleiðis mjög á óvart að rannsóknir sýndu mjög sterkan heimamarkað. „Fyrir heimamarkaðinn verður það bylting að komast á áfangastað innan dags,“ segir hann og bendir á að nú þurfi fólk frá svæðinu að taka tvo aukafrídaga þegar það fer utan vegna ferðalags til og frá Keflavík. Rannsóknir sýni að fólk í nágrenni við Akureyri telji sig spara um 32 þúsund krónur á hvern ferðalang ef það flýgur beint frá Akureyri og sleppi þannig við að ferðast til Keflavíkur.

„Þetta mun gerbylta lífsskilyrðum fólks sem býr á Akureyri og nágrenni. Það má líkja þessu við þegar rafmagn kom í sveitir fyrir 100 árum. Í dag þarf fólk samgöngur, fjarskipti og orku en okkur hefur skort samgöngur til þessa,“ segir Þorvaldur Lúðvík.

Það búa um 50 þúsund manns á heimamarkaði Niceair eða álíka margir og í Færeyjum, að hans sögn.

„Flugið mun efla til muna samkeppnishæfni fyrirtækja á svæðinu sem eiga í alþjóðlegum viðskiptum. Það er erfitt fyrir fyrirtæki að sinna viðskiptum erlendis án flugs. Það er dýrt fyrir fyrirtæki að þurfa að senda starfsmenn fyrst til Keflavíkur og þaðan á leiðarenda,“ segir hann.

Samkeppnishæft miðaverð

Aðspurður um flugmiðaverð Niceair segir Þorvaldur Lúðvík að það verði samkeppnisfært við heildarkostnað við flug til og frá Keflavík. „Miðaverð mun því ekki fæla frá erlenda farþega,“ segir Þorvaldur Lúðvík.

Bókunarvél Niceair verður tengd Dohop og öðrum erlendum bókunarvélum sem einfaldar farþegum félagsins að bóka sig beint á milli Akureyrar og áfangastaða erlendis um tengivelli félagsins í Evrópu.

Þorvaldur Lúðvík gerir ráð fyrir 55 prósenta sætanýtingu í upphafi. „Við lágmörkum áhættu í rekstri eins og hugsast getur. Liður í því er að félagið verður ekki með sjálfstætt flugrekstrarleyfi í upphafi. Það verður í höndum evrópsks flugrekanda. Við gerum ráð fyrir að starfsemin muni skapa um 15-20 stöðugildi fyrst um sinn á Akureyri,“ segir hann. Um er að ræða flugáhöfn og teymi í sölu og markaðsmálum.

Hann bendir á að ráðningarsamband flugliða verði við hinn evrópska flugrekanda en um borð verði bæði heimamenn og útlendingar. „Við leggjum mikla áherslu á að heimafólk þjóni um borð,“ segir hann og bætir við að launakjör verði sambærileg þeim sem séu á íslenskum vinnumarkaði.

Þorvaldur Lúðvík segir að rannsóknir sýni að ferðamenn séu áhugasamir um að ferðast á nýjan leik í ljósi þess að Omíkron-afbrigðið geri Covid-19 mun hættuminna. Það skipti þó verulegu máli fyrir ferðamannastrauminn að það séu ekki hindranir á inngöngu þeirra til landsins.

Nú er gerð krafa um neikvætt Covid-19 próf fyrir byrðingu frá bólusettum ferðamönnum án tengsla við Ísland.

Niceair er vel fjármagnað og óskuldsett

„Niceair er vel fjármagnað og óskuldsett,“ segir Þorvaldur Lúðvík. Hann segir að hlutafé fyrirtækisins „hlaupi á nokkur hundruð milljónum“.

Hluthafar Niceair eru 17. Hluthafahópurinn er fjölbreyttur, kemur úr ferðaþjónustu, iðnaði og sjávarútvegi. Má nefna Höld – Bílaleigu Akureyrar, Kaldbak fjárfestingafélag Samherja, Norðurböð sem eru meðal annars í eigu Bláa Lónsins og Kjálkaness, flugfélagið Norlandair, Bruggsmiðjuna Kalda, KEA og tónskáldið Atla Örvarsson.

„Enginn hluthafa er áberandi stór og enginn yfir 8 prósentum,“ segir Þorvaldur Lúðvík.