Míla mun fjárfesta hraðar í uppbyggingu en áður í ljósi breytts eignarhalds. Þetta segir Jón Ríkharð Kristjánsson, framkvæmdastjóri Mílu, í samtali við Markaðinn. Sérhæfður innviðasjóður sem stýrt er af franska sjóðastýringarfyrirtækinu Ardian keypti Mílu af Símanum. Samkeppniseftirlitið á eftir að samþykkja kaupin.

Hann segist reikna með að fjárfestingar Mílu muni aukast úr um það bil tveimur til þremur milljörðum króna á ári í um fjóra milljarða króna á ári eftir að kaupin ganga í gegn.

Jón útskýrir að Síminn sé á hlutabréfamarkaði og hafi því Míla orðið að haga fjárfestingum sínum innan tiltekins ramma Símasamstæðunnar. Almennt hafi Míla fjármagnað fjárfestingar sínar með tekjum úr rekstri en á næstu árum sé fyrirséð að fjárfestingar verði umfangsmeiri en svo. „Stærstur hluti okkar fjárfestinga er í ljósleiðaravæðingu og það mun halda áfram en nú er 5G-uppbygging einnig komin á fullt. Á þessu og næsta ári erum við einnig að endurnýja svokallað bylgjulengdarkerfi sem er grunnlag stofnfjarskipta allt í kringum landið. Það eru því mörg stór og mikilvæg uppbyggingarverkefni í gangi. „Tímabundið munum við fjárfesta fyrir hærri fjárhæðir en við öflum. Það á eftir að útfæra það með nýjum eiganda hvort tekin verða lán eða hlutafé aukið,“ segir hann.

Alþjóðlega hefur sú þróun átt sér stað innan fjarskiptafyrirtækja að innviðir eru skildir að frá sölu- og markaðsstarfi, að sögn Jóns. „Mikil samkeppni ríkir um endanotendur en hagkvæmara er að skilja að innviðina og leyfa fjarskiptafyrirtækjum að samnýta þá fjárfestingu. Það er öruggara og kemur neytendum til góða. Það verður mun auðveldara fyrir Mílu að fá fjarskiptafyrirtæki til að samnýta innviði þegar Síminn á ekki fyrirtækið,“ segir hann.

Jón segir að Míla sé ekki síður tæknifyrirtæki en innviðafyrirtæki. „Sú þróun hefur átt sér stað á undanförnum árum. Þegar Síminn var einkavæddur árið 2005 var Míla hreinna innviðafyrirtæki sem átti koparlínur og símstöðvar. Mikilvægi þeirra kerfa fyrir fyrirtækið er orðið mjög takmarkað enda hefur Míla fjárfest ríkulega í ljósleiðarakerfi og farsímakerfi. Við veitum nú meira af tæknilausnum og aðgengi að fjarskiptatækni og þjónustu,“ segir hann.

Þegar Míla hóf ljósleiðaravæðingu af fullum krafti árið 2016 var hún mest á höfuðborgarsvæðinu. „Undanfarin ár höfum við verið að færa okkur meira út á land og í ár munum við í fyrsta skipti tengja fleiri heimili við ljósleiðara á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Ljósleiðaravæðing er eitt stærsta byggðamál Íslands og Ardian hefur fjármuni og Míla þekkingu til að klára það mikilvæga verkefni,“ segir Jón.

Fjarskiptakerfin öflugri vegna einkaframtaksins

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að honum þyki augljóst að ef fjarskiptakerfin hefðu verið í opinberri eigu hefðu þau ekki verið jafn öflug og raun ber vitni. „Að því sögðu hefur það líka verið verkefni að tryggja öllum landsmönnum sambærilegan aðgang að fjarskiptakerfum rétt eins og rafmagni,“ bætir hann við.

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Haraldur segir að um flesta innviði séu skýrar reglur sem tryggja eigi hagsmuni notenda og þeirra sem byggi og reki mismunandi kerfi. „Það er engin þolinmæði fyrir hárri arðtöku af grundvallarþáttum en arðsemi verður samt alltaf að vera til að hægt sé að byggja og endurnýja,“ segir hann.

Aðspurður segist Haraldur ekki hafa lagst í ítarlega greiningu á hvaða innviðir eigi að vera í einkaeigu og hverjir á vegum hins opinbera. Hann bendir þó á að fáum dytti í hug að skipaflutningar, sem leiki lykilhlutverki fyrir landsmenn, eigi að vera í opinberri eigu. „Þeir þættir sem við getum ekki verið án þurfa sterkt utanumhald og skýrar reglur,“ segir hann. „Við eigum að leitast við að nýta samkeppnina til að hámarka hagkvæmni.“

Stærstu kaup útlendinga frá bankahruni

Kaup innviðasjóðs sem stýrt er af franska eignastýringarfyrirtækinu Ardian á Mílu er stærsta erlenda fjárfestingin hér á landi frá árinu 2009, samkvæmt gögnum frá Íslandsstofu.

Nokkuð hefur verið rætt um erlent eignarhald á Mílu. Fyrir fáeinum árum áttu erlendir fjárfestar um fjórðung í Mílu en voru vissulega aldrei með meirihluta. Ekki er erlendan hluthafa að finna á lista yfir 20 stærstu hluthafana.