„Míla er að stíga inn í nýja og spennandi tíma, nú þegar kaup Ardian og lífeyrissjóðanna á félaginu eru loksins gengin í gegn. Þessi breytta staða rennir gríðarlega sterkum stoðum undir fyrirtækið því fjárfestingagetan hefur stóraukist,“ segir Erik Figueras Torras sem tók við starfi forstjóra Mílu í byrjun desember síðastliðnum.

Hann segir fyrstu vikurnar í starfi hafa verið erilsamar en skemmtilegar.

Við erum að tala um liðlega 60 prósent aukningu frá fyrri árum og tölur sem hlaupa á milljörðum.

Erik er öllum hnútum kunnugur í íslensku fjarskiptaumhverfi og segir það sannarlega hafa hjálpað mikið til. Hann segist oft spurður að því hvað komi aðallega til með að breytast með eigendaskiptunum.

„Svarið er einfaldlega að það er heilmikið í farvatninu. Margt af því hefur ekki verið svo sýnilegt fram til þessa en það mun breytast hratt. Í fyrsta lagi mun Míla bæta verulega í fjárfestingar félagsins og styrkja kerfin. Það mun gerast strax á þessu ári.

Við erum að tala um liðlega 60 prósent aukningu frá fyrri árum og tölur sem hlaupa á milljörðum. Yfirstandandi ár verður algjört metár því við erum að fjárfesta fyrir liðlega fimm milljarða króna.

En hvaða áhrif munu þessar fjárfestingar hafa? Mun venjulegt fólk finna fyrir þessari aukningu og uppbyggingu kerfanna?

„Alveg klárt mál. Í raun þýðir þetta að Míla mun færa Ísland inn í nýja tíma hvað tækniþróun varðar. Áhrifanna mun gæta á öllum sviðum því góð og öflug fjarskipti spila sífellt stærri rullu í öllu sem við gerum og hefur snertifleti við alla þá grunnþjónustu sem við þurfum á að halda.“

Þessi innspýting fjármagns mun svo ekki bara leiða til þess að tækninni fleygi fram heldur mun öryggið líka aukast um allt land að sögn Eriks.

„Ísland stendur mjög framarlega í fjarskiptum og tækniþróun en það hefur vantað dálítið upp á að þessi þróun nái til alls landsins. Þessu viljum við breyta og taka stór skref fram á við á landsvísu. Við viljum leiðrétta þennan halla sem hefur myndast á milli mismunandi landshluta og bæta lífskjör allra á Íslandi. Þessu mun fólk taka eftir.

Ég hef þá sýn að það eigi ekki að skipta máli hvort fólk búi í Garðabæ eða á Kópaskeri. Tæknin og fjarskiptin eiga að vera þau sömu.

„Ég hef þá sýn að það eigi ekki að skipta máli hvort fólk búi í Garðabæ eða á Kópaskeri. Tæknin og fjarskiptin eiga að vera þau sömu,“ segir Erik.

Þriðja atriðið sem aðkoma nýrra eigenda breyti, að sögn Eriks, er svo umhverfið sjálft. Með því að slíta strenginn á milli Símans og Mílu skapist andrúmsloft fyrir eðlilega samkeppni á íslenskum fjarskiptamarkaði.

„Míla stendur öllum opin eftir þessa breytingu. Ég hef starfað lengi í fjarskiptum á Íslandi og þekki Mílu vel en ég sé strax hvernig andrúmsloftið hefur breyst. Ég finn það nú þegar í samskiptum við okkar viðskiptavini,“ segir Erik.

Erik fór um víðan völl í viðtali í Markaðnum á Hringbraut í gærkvöldi
Fréttablaðið/Anton Brink

Hann segist bæði spenntur og stoltur yfir því að vera falið að leiða Mílu á þessum spennandi tímum.

„Þótt ég sé sannarlega íslenskur ríkisborgari þá fæddist ég ekki á Íslandi. Það er mér því ótrúlega mikils virði að vera treyst fyrir þessu starfi og þessum verkefnum því þau munu bæta lífskjör í landinu, ég er sannfærður um það,“ segir Erik að lokum.