Í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu í febrúar urðu gríðarlegar verðhækkanir á hrávörum og málmum sem hafa haft mikil áhrif á verðlag um allan heim. Orkuverð hækkaði einnig, auk þess sem orkuskortur er nú í Evrópu.

Fyrir hafði heimsfaraldurinn valdið miklum verðhækkunum og röskunum og aðfangakeðjan laskaðist svo að kostnaður við gámaflutninga næstum tífaldaðist.

Nú hefur þetta gengið mikið til baka og flutningskostnaður hefur ekki verið lægri í tæp tvö ár – hefur lækkað um 73 prósent frá því að hann var hæstur í lok síðasta árs. Er hann þó enn um tvöfaldur á við það sem var fyrir Covid.

Hrávörur og málmar hafa lækkað mjög í verði undanfarna mánuði og undanfarnar vikur hefur orkuverð einnig tekið að lækka. Þessar verðlækkanir virðast lítið sem ekkert koma fram í verðlagi hér á landi.

Að sögn Jóns Bjarka Bentssonar, aðalhagfræðings Íslandsbanka, hefur lækkun krónunnar undanfarna mánuði torveldað okkur að fylgjast með því hvernig verðlækkun erlendis skilar sér. „Við erum þó að minnsta kosti að sjá minni hækkun á erlendum vörum almennt í innlendum verslunum en sem nemur til dæmis verðbólgu í nágrannalöndunum. Samkvæmt Hagstofunni höfðu innfluttar vörur á heildina litið hækkað um tæp 7 prósent í október frá sama mánuði í fyrra og innfluttar matvörur um rúm 5 prósent. Krónan var þó vissulega heldur sterkari í október en fyrir ári síðan,“ segir Jón Bjarki.

„Í fljótu bragði sýnist mér að við höfum losnað við versta hækkunarkúfinn í innfluttum vörum þegar heimsmarkaðsverð var sem hæst í vor og kannski vilja innlendir kaupmenn að sama skapi halda eftir einhverjum hluta af þeirri verðlækkun sem hefur orðið síðan. Verð á ýmsum vörum, allt frá hveiti til bensíns, er líka enn þá talsvert hærra á alþjóðavísu en var í ársbyrjun þótt mesta hækkunin hafi gengið til baka. Ef krónan helst sæmilega stöðug, eða jafnvel sækir aftur í sig veðrið, er samt líklegt að við förum að sjá áhrif af þróuninni erlendis í verði á innfluttum vörum og mér finnst líklegt að innflutningsverð haldi aftur af verðbólgunni frekar en hitt þegar kemur fram á næsta ár,“ segir Jón Bjarki Bentsson.