Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Eldeyjar, segir að miklar þreifingar sé í ferðaþjónustunni og stjórnendur fyrirtækja séu tilbúnir í viðræður um samruna.

Þetta er haft eftir Hrönn í umfjöllun Markaðarins um stöðu ferðaþjónustunnar en þar greindi hún meðal annars frá því að nú væri tími tækifæra fyrir Eldey. Fjárfestingarfélagið, sem er í stýringu hjá Íslandssjóðum, dótturfélagi Íslandsbanka, sérhæfir sig í fjárfestingum í ferðaþjónustu. Eldey er virkur fjárfestir, á fulltrúa í stjórnum þeirra fyrirtækja sem félagið fjárfestir í og hefur því góða yfirsýn yfir stöðuna.

Eldey stóð að sameiningu Íslenskra fjallaleiðsögumanna og Arcanum ferðaþjónustu árið 2018 og skoðar nú frekari sameiningar eða samvinnu hjá þeim fyrirtækjum sem félagið hefur fjárfest í.

„Fyrir Eldey er þetta tími tækifæranna. Það hefur verið markmið Eldeyjar að fjárfesta í félögum, þjappa þeim saman og búa til stærri og sterkari einingar, og nú er mjög góður jarðvegur til þess. Stjórnendur eru tilbúnir til þess að ræða sameiningar og sjá þörfina fyrir þær. Í góðærinu sáu menn ekki tilganginn í því að steypa tveimur félögum saman sem bæði gengu vel. Það var alveg eins gott að reka þau hvort í sínu lagi,“ segir Hrönn. Auk þess hafi verðhugmyndir og væntingar tekið breytingum í takt við gang mála í vetur.

„Það má segja að menn séu komnir niður á jörðina. Það eru mjög miklar þreifingar og við getum sagt að það sé kaupendamarkaður eins og staðan er í dag.“