Fjárfestar búast við því að Jay Powell, bankastjóri bandaríska seðlabankans, ákveði að lækka vexti í því skyni að sporna við versnandi horfum í alþjóðahagkerfinu og spennu í milliríkjaviðskiptum.

Þetta kemur fram í umfjöllun Financial Times en vaxtaákvörðun bankans verður birt á miðvikudaginn. Vaxtaskiptasamningar gefa til kynna að fjárfestar meti 80 prósent líkur á 25 punkta vaxtalækkun næsta miðvikudag.

Ef bandaríski seðlabankinn ákveður að lækka vexti verður það fyrsta vaxtalækkun bankans frá árinu 2008. Vextir yrðu þá lækkaðir þrátt fyrir langan samfelldan hagvöxt, lágt atvinnuleysi og miklar hækkanir á hlutabréfum.

Financial Times tók saman nokkur ummæli Powells sem benda til þess að hann muni ákveða að lækka vexti. Hann er til að mynda sagður horfa meira til stöðu alþjóðahagkerfisins en forverar hans. Þó að bandaríska hagkerfið standi vel geti samdráttur í öðrum heimshlutum smitast yfir til bandaríkjanna.

„Peningastefna í einu landi getur haft áhrif á efnahagsástand í öðrum löndum gegnum fjármálamarkaði, milliríkjaviðskipti og væntingar,“ sagði hann í ræðu í París fyrr í mánuðinum.

Þá mun seðlabankinn hafa áhyggjur af meiri áhættu í hagkerfinu, spennu í milliríkjaviðskiptum og því að laun hafi ekki hækkað í takt við lækkandi atvinnuleysi og aukin umsvif í hagkerfinu.