Úrvalsvísitala Kauphallarinnar lækkaði um meira en fimm prósent í fyrstu viðskiptum dagsins á hlutabréfamarkaði. Er það í takt við lækkanir á asískum og evrópskum hlutabréfamörkuðum í morgun.

Úrvalsvísitalan fór niður fyrir 1.630 stig skömmu eftir opnun markaða í morgun en til samanburðar stóð hún í 1.721 stigi þegar markaðir lokuðu á föstudag. Hefur hún fallið um 22 prósent undanfarinn mánuð.

Hlutabréf í Icelandair Group hríðféllu um meira en fjórtán prósent í verði í fyrstu viðskiptum dagsins og fór gengi bréfanna niður í 3,6 krónur á hlut. Þá lækkaði hlutabréfaverð í Skeljungi um 10,6 prósent, hlutabréf í Eik fasteignafélagi fóru niður ríflega tíu prósent í verði og þá féll gengi bréfa í Iceland Seafood um ríflega níu prósent.

Miklar sveiflur hafa einkennt alþjóðlega hlutabréfamarkaði síðustu daga og vikur eftir því sem kórónaveiran hefur breiðst út um heiminn.

Seðlabanki Bandaríkjanna lækkaði í gærkvöldi stýrivexti um eitt prósentustig og greip til viðamikilla aðgerða til þess að styðja við fjármálamarkaði landsins. Áður hafði bankinn lækkað vextina um hálft prósentustig á sérstökum neyðarfundi peningastefnunefndar fyrr í mánuðinum og heitið því að dæla stórauknu lausafé inn í fjármálakerfi landsins. Tilkynning bankans dugði hins vegar ekki til þess að róa fjárfesta en miklar lækkanir hafa verið á mörkuðum í Asíu og Evrópu í morgun - í kjölfar tilkynningarinnar - og er búist við verðhruni á bandarískum mörkuðum þegar þeir opna síðar í dag.