Verð á hlutabréfum í Sýn hefur hækkað um rétt tæp 30 prósent síðastliðna 30 daga. Sveinn Þórarinsson, greinandi hjá Landsbankanum segir að hækkunina megi meðal annars rekja til þess að fjárfestar séu að bera saman Símann að Mílu undanskilinni við Sýn.

„Það má í raun segja að þessi sala á innviðum hafi ýtt við Sýn að einhverju leyti. Menn hafa verið að horfa á Símann, hvað verðmæti Símans er eftir söluna á Mílu og borið það saman við Sýn,“ segir Sveinn og bætir við að Sýn hafi líka ekki verið að fylgja markaðnum í gegnum tíðina.

Sveinn Þórarinsson, greinandi hjá Landsbankanum.

„Það kemur stundum fyrir að ákveðnir stokkar eða ákveðin hlutabréf „gleymast“ þannig að athyglin hefur ekki náð á þau. Það hefur verið lítil eftirspurn eftir bréfum í einhvern tíma og síðan átta menn sig á því að það er hægt að ná einhverri ávöxtun. Síðan má líka nefna að uppgjörið var mjög fínt. Svo þetta er bolti sem fer að rúlla og þetta er hratt að gerst.“

Sýn tilkynnti uppgjör fyrir 3. ársfjórðung eftir lokun markaða í gær og í því kom fram að hagnaður á fjórðunginum hafi numið 172 milljónum króna samanborið við 8 milljónir króna á sama tímabili í fyrra.

Sveinn segir að margir hafi verið að sjá fyrir sér að uppgjörið myndi verða gott og svo hafi orðið. „Uppgjörið var mjög fínt. Það var tekjuvöxtur í fjölmiðlum og tekjuvöxtur í farsímum og það hjálpaði afkomunni. Sú staðreynd styður við félagið inn í daginn í dag og ég tel að það sé óhætt að segja að markaðurinn sé að vakna varðandi Sýn.“

Hann bætir við að áhugavert sé að Sýn hafi tilkynnt í gær að þeir hyggist fara í færsluhirðingu. „Það hefur verið erfitt fyrir félagið að ná vexti í tekjum varðandi internet og farsíma og fjölmiðlun hefur átt undir högg að sækja sérstaklega hjá Sýn. Þannig markaðurinn hefur verið að bíða eftir hvort þessi fyrirtæki taki hliðarskref og fari inn á markaði sem þau hafa ekki farið inn á áður.“