Doktor Alan Watkins, stjórnendaþjálfari og eigandi Complete, segir að einn mikilvægasti eiginleiki sem leiðtogar geti búið yfir sé forvitni.

„Þeir sem eru minna forvitnir ná einfaldlega ekki sama árangri og ofar öllu ættu leiðtogar að vera opnir og móttækilegir fyrir áliti annarra. Þegar ég starfaði sem þjálfari árið 2012 fyrir Ólympíuleikana spurði ég þjálfarana hvort þeir þyrftu aðstoð við undirbúninginn. Sex af þeim sjö sem þáðu hjálp enduðu á verðlaunapalli,“ segir doktor Watkins og bætir við að þessi reynsla hafi kennt honum að vera opinn fyrir því að fá aðstoð frá öðrum og leita sífellt annarra leiða til að nálgast hlutina.

Doktor Watkins hélt erindi á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs sem fram fór á Hilton síðastliðinn föstudag. Hann hélt erindi sem bar yfirskriftina: Ef þú telur að allt sé að breytast, þá ertu ekki einn.

Í erindinu fjallaði hann um hver væri besta leiðin til að innleiða breytingar í fyrirtækjum.

„Fyrirtækin þurfa að íhuga þrjár víddir breytinga. Það er að segja breyta því sem þau gera, breyta tengslum milli fólks og innleiða breytingar á einstaklingsgrundvelli. Þau þurfa að breyta öllum þessum þáttum til þess að breytingarnar geti orðið til góðs. Ef fyrirtæki eru ekki að ná árangri þarf að breyta því hvernig þau nálgast hlutina.“