Hvernig er morgunrútínan þín?

Það gefst lítill tími fyrir rólegheit á morgnana. Ég vakna ca 7.30 og byrja yfirleitt á því að vekja strákana mína og gera þá klára fyrir skólann, síðan tékka ég á tölvupóstinum og helstu fréttum. Ég stoppa iðulega á Kaffitári í Borgartúni til að ná mér í gott kaffi og croissant áður en ég mæti á skrifstofuna.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Fjallamennska og alls konar útivist með vinum og fjölskyldu er það skemmtilegasta sem ég geri. Ég elska að vera á fjöllum, hlaupandi, hjólandi, gangandi eða á göngu- eða fjallaskíðum. Fjöllin hafa yfir einhverjum töfrum að búa og þar næ ég í ótæmandi orku og gleði. Bestu fríin erlendis eru skíðaferðir með manninum mínum, börnum og vinum. Ég er alin upp í íþróttum og finnst skemmtilegt að taka þátt í mótum. Þá skiptir öllu máli að eiga skemmtilega æfingafélaga, það er nauðsynlegt að hlæja þegar maður er að æfa þolið og styrkinn. Líkt og þegar ég og vinkona mín Karen Kjartansdóttir hlupum hálft maraþon í síðustu viku í leit að símanum mínum. Við erum nokkrar vinkonur sem æfum saman, ég, Karen, Þórey Vilhjálms, Birna Braga og Anna Kristín Kristjáns. Við erum líka í frábærum útivistarhópi, FÍ Landkönnuðum, sem er leiddur af Brynhildi Ólafsdóttur og Róberti Marshall, þau eru þaulreynd í útivistinni. Það er ómetanlegt að hafa aðgengi að þeirra þekkingu og reynslu. Við erum búin að gera frábæra hluti saman, fara í langar jökla- og fjallgöngur, fórum einmitt um síðustu helgi á Kirkjufellið í bongóblíðu. Fjallið er krefjandi og því nauðsynlegt að fara upp í réttum búnaði og með leiðsögn. Ég er að æfa mig fyrir Urriðavatnssundið og Jökulsárhlaupið þannig að núna er ég mikið að hlaupa og synda.

Hvaða bók ert þú að lesa eða last síðast?

Mér finnst skemmtilegast að lesa sagnfræðilegar bækur, hvort sem það eru skáldsögur eða ævisögur. Ég er búin að vera að lesa bækur Elenu Ferrante. Áður las ég Hornauga eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur sem mér fannst mjög góð og hugrökk saga. Áður las ég Næturgalann eftir Kristin Hannah sem er frábær bók.

Hvar sérðu sjálfa þig eftir tíu ár?

Það er sagt að hamingjan komi á undan velgengninni, ég reyni að hafa það að leiðarljósi í lífinu. Ef maður ræktar sjálfan sig og er hamingjusamur þá eru meiri líkur á því að manni miði vel í starfi og áfram á atvinnumarkaði. Ég ætla að halda áfram að njóta lífsins og náttúrunnar með fjölskyldunni minni og vinum, hér á landi og erlendis. Ég verð pottþétt að gera einhverja ótrúlega skemmtilega hluti, það er nóg eftir á bucket-listanum mínum.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrarumhverfinu í dag?

Í starfi mínu sem ráðgjafi starfa ég á sviði samfélagsábyrgðar, breytingastjórnunar og almannatengsla fyrir alþjóðleg og innlend fyrirtæki og félagasamtök. Sem ráðgjafi finnst mér mikilvægt að samtvinna samfélagsábyrgð og almannatengsl. Almannatengsl snúast um að koma skilaboðum markvisst á framfæri til hagsmunaaðila til að hafa jákvæð áhrif á vörumerki og viðskiptatengsl og lágmarka hættu á áföllum. Því betri sem áhættustýring er í starfsemi fyrirtækja því minni líkur eru á áföllum.

Þegar fyrirtæki fylgja eftir stefnu í samfélagsábyrgð eru þau að fylgja eftir aðferðafræði sem byggir á gæðastjórnun. Fyrirtækin hafa kortlagt áhrif starfseminnar á efnahag, umhverfi og samfélag og sett sér mælanleg markmið til að gera betur í þessum málaflokkum. Markmiðið er að lágmarka umhverfisáhrifin með því að innleiða mótvægisaðgerðir og stýra virðiskeðjunni á ábyrgan hátt í starfseminni. Enn fremur er markmiðið að hafa jákvæð áhrif á samfélagið, framfylgja góðum stjórnarháttum, efla jafnrétti og auka gegnsæi. Á þennan hátt geta fyrirtæki eflt samkeppnishæfni sína á markaði.

Á þessari vegferð þurfa fyrirtæki að horfa út fyrir kassann sem kallar á nýsköpun og þróun sem aftur hefur jákvæð áhrif á arðsemi fyrirtækja til lengri tíma. Samkvæmt Harvard Business Review er arðsemi samfélagslega ábyrgra fyrirtækja 25% - 50% meiri. Kröfur aldamótakynslóðarinnar eru mun meiri á að fyrirtæki axli ábyrgð í umhverfismálum og er umhverfisvitundarvakningin knúin áfram af þessum hópi. Ungir neytendur og ungir starfsmenn gera einnig kröfur um að fyrirtæki hafi almennt jákvæð áhrif á samfélagið, stuðli að auknu jafnrétti og gegnsæi og gefi sér sem neytendum og starfsmönnum tækifæri til að láta gott af sér leiða. Þau eru einnig meðvituð um áhrif sín á vörumerki með skilaboðum á samfélagsmiðlum.

Enn fremur eiga sér stað miklar og hraðar umbreytingar vegna sjálfvirknivæðingar á markaði sem er áskorun fyrir alla stjórnendur. Það er margt sem snýr að snjallvæðingunni, meðal annars auknar líkur á net- og öryggisbrestum, sem getur haft mjög neikvæð áhrif og skaðað orðspor fyrirtækja mikið. Í mínu starfi þá vinn ég með stjórnendum við að kortleggja mögulega bresti og undirbý þá til að takast á við þá ásamt tæknimönnum á skilvirkan og hraðan hátt. Þeir stjórnendur fyrirtækja sem gera sér ekki grein fyrir mikilvægi umhverfismála og tækninnar verða á eftir í samkeppninni.

Hefur ráðgjafastarfið breyst undanfarin ár?

Fyrir einhverjum árum síðan þá þurfti maður að sannfæra stjórnendur um mikilvægi umhverfis- og jafnréttismála. Þetta voru álitin mjúk mál en sem betur fer er það ekki þannig í dag, enda sýna rannsóknir fram á forskot fyrirtækja sem sinna samfélagsábyrgð vel og eru með blandaðar stjórnir og stjórnendur. Stjórnendur í dag gera sér flestir grein fyrir því að stóru hnattrænu vandamálin, hlýnun jarðar, súrnun sjávar, hækkun sjávarborðs, aukinn fólksfjöldi eru vandamál okkar allra. Nú er ég að vinna með stjórnendum í því að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í starfsemi sína. Þetta er virkilega ánægjuleg þróun. En sem ráðgjafi ertu alltaf markvisst að vinna að minni áfangasigrum sem færir þig nær stærri sigrunum. Skýr stefna og mælanleg markmið koma þér fyrr á þann stað.

Helstu drættir

Störf:

Soffía Sigurgeirsdóttir er ráðgjafi hjá KOM ráðgjöf. Áður en hún gekk til liðs við KOM í janúar 2015 starfaði hún sem framkvæmdastýra Landsnefndar UN Women á Íslandi og situr hún þar í stjórn. Þar á undan starfaði hún sem sjálfstæður ráðgjafi fyrir alþjóðleg fyrirtæki á sviði samfélagsábyrgðar og almannatengsla og í stjórnmálum. Soffía starfaði í 10 ár í fjármálageiranum sem sérfræðingur í almannatengslum og samfélagsábyrgð hjá Landsbankanum, sem framkvæmdastjóri fjárfestatengsla og markaðsmála hjá Spron og sem forstöðumaður markaðsmála hjá Sambandi sparisjóða.

Menntun:

Soffía er með M.Sc. í alþjóðasamskiptum frá London School of Economics og B.A. í sálarfræði frá Háskóla Íslands. Hún er með vottun frá Global Reporting Initiative (GRI) í skýrslugerð um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja.

Fjölskylduhagir:

Gift Bergi Rósinkranz hagfræðingi, saman eiga þau Sölku, Gabríel Sölva, Úlf Geir og Loka Gunnar.