Hlutur samneyslu af vergri landsframleiðslu (VLF) jókst mikið á árinu 2020 og var 27,8 prósent, en hluti kemur til vegna lækkunar VLF á árinu. Raunhækkun samneyslu var líka óvenju mikil á árunum 2018-2020, en alls hækkaði hún um 13,4 prósent á þessum árum, eða um 3,4 prósent að meðaltali á ári. Aukning samneyslunnar á árinu 2020 var því ekki meiri en árin á undan, en hún hélt sjó og vel það á meðan aðrar stærðir í hagkerfinu gáfu eftir.

Samneysla hefur aldrei verið meiri en í fyrra, en dróst samt saman sem hlutfall landsframleiðslu.

Samneyslan hækkaði svo um 1,8 prósent að raungildi á árinu 2021 og var þá 27,4 prósent af VLF.

Samneysla óvenju mikil í sögulegu samhengi

Meðalhlutur samneyslu af VLF frá aldamótum er 24,5 prósent. Hlutfallið 2020 og 2021 er því hátt í sögulegu samhengi. Samneyslan þróaðist líka með allt öðrum hætti í kórónukreppunni en í fjármálakreppunni á árunum eftir 2008. Þannig minnkaði samneyslan að raungildi um 7,7 prósent á árunum 2009-2012, en breytingin var svipuð og gilti um landsframleiðsluna alla, þannig að hlutfall samneyslu af VLF lækkaði ekki mikið á þessum árum. Hlutfallið lækkaði hins vegar á árunum á eftir þegar samneyslu jókst minna en aðrar stærðir landsframleiðslunnar.

Heldur hefur dregið úr vexti samneyslu undanfarin þrjú ár.

Hið opinbera hefur tekið á sig miklar byrðar á síðustu árum og safnað töluverðum skuldum. Á það sérstaklega við um ríkissjóð. Því má búast við að frekar dragi úr áhrifum samneyslunnar á landsframleiðsluna á næstu árum frekar en hitt. Seðlabankinn spáir t.d. 1,7 prósent meðaltalsaukningu samneyslu á ári næstu 3 ár á sama tíma og landsframleiðslan eykst mun meira. Hlutur samneyslu af VLF mun því minnka á næstu árum, gangi spár eftir.

Opinber fjárfesting jókst loksins í fyrra

Fjárfesting hins opinbera jókst um 12,4 prósent milli 2020 og 2021 og var 4,1 prósent af VLF. Næstu tvö ár þar á undan hafði opinber fjárfesting dregist saman um 12,5 prósent. Raungildi opinberra fjárfestinga var því svipað á árinu 2021 og var á árinu 2018.

Eftir samdrátt í tvö ár jókst opinber fjárfesting í fyrra.

Meðaltal opinberrar fjárfestingar af VLF var 3,8 prósent frá 2000 til 2021 þannig að fjárfestingarstigið í fyrra var eilítið hærra en meðaltalið eftir að hafa verið mun lægra en árin tvö þar á undan.

Miklar sveiflur í opinberri fjárfestingu

Frá aldamótum hefur raungildi opinberrar fjárfestingar aukist um 3 prósent á ári að meðaltali. Sveiflurnar eru hins vegar mjög miklar. Mest jókst opinber fjárfesting, um tæp 39 prósent, á árinu 2018 og mest minnkaði hún, um rúm 40 prósent, á árinu 2012. Frá aldamótum hefur opinber fjárfesting minnkað 11 sinnum milli ára.

Fjárfestingarátak sem ekki raungerðist

Á árinu 2019 boðaði ríkisstjórnin mikið fjárfestingarátak sem einkum átti að beinast að innviðum og átti að koma inn á tímum þegar ætla mætti að draga myndi verulega úr fjárfestingu atvinnuveganna. Þetta átak náði því miður aldrei því flugi sem því var ætlað sem meðal annars má sjá á því að fjárfestingin minnkaði bæði 2019 og 2020.

Athygli vekur að opinberar fjárfestingar drógust saman eftir að mikið fjárfestingarátak var boðað og kynnt 2019.

Markviss áætlanagerð nauðsynleg

Ein ástæða þess að margnefnt fjárfestingarátak náði ekki tilætluðum árangri var skortur á undirbúningi og langtímahugsun. Þau verkefni sem opinber fjárfesting fæst við eru oft flókin og þarfnast langs og mikils undirbúnings. Þar koma inn þættir eins og umhverfismat og þar að auki rekast opinberar framkvæmdir á hagsmuni margra. Markviss undirbúningur og langtímahugsun skipta því verulegu máli í þessu sambandi.