Aðalheiður Hreinsdóttir, meðstofnandi fræðslu- og skólahugbúnaðarins LearnCove, sigraði á dögunum í flokki íslenskra stofnenda í Arctic Future Challenge. Hún mun því keppa fyrir Íslands hönd á móti fulltrúum átta annarra norðurslóðaríkja í lokakeppninni. Markmið keppninnar er að styrkja nýsköpunar- og frumkvöðlafyrirtæki sem stýrt er af ungu fólki og vekja í senn athygli á spennandi og samfélagslega mikilvægum nýsköpunarverkefnum á norðurslóðum.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Ég hef alltaf verið mikið fyrir íþróttir. Ég spilaði handbolta með Stjörnunni og Val en lagði skóna á hilluna fyrir tveimur árum. Síðan þá hef ég verið í CrossFit.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Ég reyni að fara á morgunæfingu 2-3 í viku og vakna þá kl. 6.30. Hina dagana mæti ég snemma til vinnu þar sem samstarfsaðilar okkar í Evrópu eru 1-2 tímum á undan okkur. Áður en ég hef vinnudaginn byrja ég yfirleitt á staðgóðum hafragraut með einhverju fersku. Rútínan er reyndar aðeins búin að riðlast undanfarið þar sem ég er á 33. viku meðgöngu.

„Það er mikilvægt að kortleggja nákvæmlega hvaða kröfur og þarfir varan eða þjónustan á að uppfylla og hafa væntanlega notendur með í ráðum.“

Hver var kveikjan að LearnCove?

Við lærum öll á mismunandi hátt þar sem styrkleikar okkar og áhugasvið eru ólík. Þrátt fyrir það hafa flest fræðslukerfi verið þróuð á þann hátt að námsefni er borið fram með sömu nálgun gagnvart öllum nemendum.

LearnCove var þróað til að mæta betur fjölbreyttum þörfum nemenda með því að bjóða þeim ólíkar leiðir til að ná að sömu markmiðum. Nemandi sem hefur áhuga á myndbandagerð getur þannig valið að gera myndband til að koma sinni þekkingu eða hæfni í ákveðnu viðfangsefni til skila, á meðan nemandi sem hefur meiri áhuga á því að tjá sig í rituðu máli getur valið að skrifa ritgerð eða sögu.

prófill.PNG

Kennarar hafa aðgang að miðlægu efnis- og verkefnasafni þar sem þeir geta fengið hugmyndir frá öðrum kennurum að ólíkum nálgunum. Þar að auki geta þeir stutt vel við nemendur með íslensku sem annað mál með hjálp vélþýðingar yfir á móðurmál barnsins, boðið nemendum sérstakt stuðningsefni eða aukaefni sem þurfa á því að halda og nýtt kennsluforrit og rafrænt efni til að virkja nemendur sem best.

Hver er helsta áskorunin í rekstrinum um þessar mundir og hvaða tækifæri eru fram undan?

Það sem hefur komið okkur mest á óvart er hvað LearnCove getur gagnast fjölbreyttum hópi. Við þróuðum það upprunalega með þarfir grunnskólabarna í huga, en núna erum við komin á þann stað að kerfið er notað sem grunnur í meðferðarkerfi hjá SÁÁ, fjarþjálfun fyrir sjúkraþjálfara og nýtist vel fyrir framhaldsfræðslu og í starfsþjálfun fyrirtækja. Í því felast mestu tækifærin fyrir okkur en jafnframt stærsta áskorunin. Það mikilvægasta í vaxtarferli eins og við erum í núna er að halda fókusnum á réttum mörkuðum.

adalheidur hreinsdottir0084.jpg

Hvernig má efla nýsköpunar­umhverfið á Íslandi að þínu mati?

Við Íslendingar erum svo heppnir að búa yfir ótrúlega sterkum hópi frumkvöðla með verðmætar hugmyndir í öllum atvinnugreinum. Það er mikilvægt í nýsköpunar­umhverfinu að frumkvöðlar hafi aðgang að fjármagni, frá ríki, sjóðum og einstaklingum, til að brúa bilið frá hugmynd að tekjum á markaði. Stór og metnaðarfull verkefni ná ekki fótfestu án þolinmóðs fjármagns. Hver einasta króna sem fer í slíka sjóði er líkleg til að skila sér margfalt í skatttekjum þegar stórar hugmyndir slá í gegn og verða Marel og CCP framtíðarinnar.

Hugbúnaðurinn okkar, LearnCove, væri ekki á þeim stað sem hann er í dag ef ekki hefðu komið til styrkir frá Tækniþróunarsjóði og fjárfestum sem hafa haft trú á verkefninu frá byrjun. Við erum þeim ótrúlega þakklát fyrir það.

Hver hefur verið mikilvægasti lærdómurinn af því að koma nýsköpunarfyrirtæki á fót?

Stærsti lærdómurinn okkar hefur verið að skilja hversu mikilvægt náið samstarf við væntanlega viðskiptavini og samstarfsaðila er. Algeng mistök hjá nýsköpunarfyrirtækjum eru að fara af stað í þróun á vöru sem ekki er pláss fyrir á markaði. Það er mikilvægt að kortleggja nákvæmlega hvaða kröfur og þarfir varan eða þjónustan á að uppfylla og hafa væntanlega notendur með í ráðum.